Næsta ár gæti orðið stórt fyrir kvikmyndahúsin. Hér á landi eru væntanlegar íslenskar kvikmyndir á borð við Ástin sem eftir er og Eldarnir. Úr smiðju þeirra Braga Þórs Hinrikssonar og Helgu Arnardóttur eru þá tvær kvikmyndir væntanlegar; Röskun, sem byggð er á samnefndri bók, og Víkin. Í fyrra var Snerting eftir Baltasar Kormák tekjuhæsta kvikmyndin á Íslandi og fór hún jafnframt í alþjóðlega dreifingu.
Alfreð Ásberg Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, segir nauðsynlegt að styrkja íslenska kvikmyndagerð og gæta þess að unnt sé að gera íslenskt bíó sem höfðar til áhorfenda. Þá sé menningarlega mikilvægt að bíóin vaxi og dafni samhliða tæknibreytingum.
„Við eigum frábært og fjölbreytt kvikmyndagerðarfólk á Íslandi – í leikstjórn, handritagerð og tæknigreinum. Fjöldi íslenskra mynda hefur vakið athygli og unnið til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi. En staðan í dag er sú að kerfið vinnur gegn eigin markmiðum,“ segir Alfreð.
„Kvikmyndasjóður Íslands hefur ekki vaxið í takt við raunverulegan kostnað við kvikmyndagerð, hvorki miðað við verðbólgu né vaxandi metnað í greininni. Það er í raun óásættanlegt að ein helsta skapandi útflutningsgrein þjóðarinnar – með sýnilega alþjóðlega burði – skuli enn þurfa að berjast fyrir grunnfjármögnun í hverju einasta verkefni,“ segir hann enn fremur.
„Stjórnvöld hafa talað fyrir fjölbreyttu atvinnulífi, nýsköpun og auknum útflutningi á hugviti en ef þau líta ekki á kvikmyndagerð sem hluta af því, þá eru þau einfaldlega að missa af tækifærinu. Við þurfum raunverulega stefnumótun og stöðuga uppbyggingu. Það er ekki nóg að segja „við styðjum menningu“ – það þarf að sjást í fjárlögum og í framkvæmd.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.