Alls hafa 33.637 manns skráð sig í lækkað starfshlutfall í kjölfar Covid faraldursins, og jafngildir atvinnumissir þeirra 10,3% atvinnuleysi, til viðbótar við 7,5% almennt hefðbundið atvinnuleysi. 5.800 manns var sagt upp í hópuppsögnum í mars og apríl. Þetta kemur fram í nýbirtri vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar fyrir aprílmánuð.
Samanlagt var skráð atvinnuleysi því 17,8% í apríl og ríflega tvöfaldaðist milli mánaða. Hlutastarfsatvinnuleysi fór úr 3,5% í 10,3% og hér um bil þrefaldaðist, en ekki var opnað á bótaúrræðið fyrir hlutastörf fyrr en í lok marsmánaðar.
Meðalbótahlutfall starfsmanna í lækkuðu starfshlutfalli var tæp 60%. Þá jókst almennt atvinnuleysi úr 5,7% í 7,5%.
85% hópuppsagna var í flugsamgöngum og ferðaþjónustu og 95% uppsagðra eru á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að nokkuð dragi úr atvinnuleysi nú í maí þegar margir á hlutabótaleiðinni ýmist missi vinnuna alfarið eða snúi aftur í fullt starf. Nú þegar mánuðurinn er hálfnaður hafi 7.500 manns eða um 22% hlutabótaþega þegar skráð sig úr úrræðinu.