Flugfélagið Play tapaði 15,3 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi 2025, eða sem nemur tæplega 1,9 milljörðum króna, samanborið við 10 milljóna dala tap á öðrum ársfjórðungi 2024. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Á fyrstu sex mánuðum ársins nemur tap Play 42 milljónum dala, eða um 5,2 milljörðum króna.
Play hafði sent frá sér neikvæða afkomuviðvörun þann 21. júlí þar sem gert var ráð fyrir tapi upp á um það bil 16 milljónir dala á fjórðungnum, eða hátt í 2 milljarða króna. Bar félagið fyrir sig þrjá þætti sem félagið hafi ekki áhrif á sjálft, m.a. neikvæð gengisáhrif vegna styrkingar íslensku krónunnar, veikari eftirspurn á Atlantshafsmarkaði, og tafir á afhendingu flugvélar til Play Europe vegna viðhalds.
Rekstrartekjur drógust saman um 6,2 milljónir dala milli ára og námu 72,1 milljón, eða sem nemur tæplega 8,9 milljörðum króna. Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) voru þó hærri og kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) lægri á örðum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra.
Rekstrarkostnaður lækkaði úr 74,1 milljónum dala í 71 milljón dala milli ára, einkum vegna minnkandi áætlunarflugs og lækkandi eldsneytisverðs.
Samkvæmt uppgjörstilkynningu er gert ráð fyrir að hagnaður á þriðja ársfjórðungi verði svipaður og í fyrra, þrátt fyrir tímabundna viðgerðarstöðvum á vélum. Búist er við minni taprekstri yfir vetrartímann, sem muni bæta niðurstöðu fjórða ársfjórðungs 2025 og fyrsta ársfjórðungs 2026 um allt að 25 milljónir dala. Play gerir þá ráð fyrir að skila hagnaði á árinu 2026.
„Við höfum verið að innleiða nýtt viðskiptalíkan sem við kynntum síðastliðin haust og gengur það samkvæmt áætlun. Við erum markvisst að færa leiðakerfið yfir sólarlandaáætlun og höfum lagt undirstöðurnar að stöðugri tekjugrunn félagsins í formi langtímaleigusamninga á hluta flota okkar. Á öðrum ársfjórðungi jókst framboð okkar til sólarlandaum 15% milli ára þrátt að færri vélar væru í áætlun okkar frá Keflavík. Þessi breyting sést skýrt þegar flugáætlun okkar fyrir næstu tvo fjórðunga er skoðuð, þar sem hlutfall sólarlandaáfangastað eykst verulega á þriðja og fjórða ársfjórðungi,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
„Við erum auka vægi leiguverkefna í rekstri okkar – fjórar flugvélar eru þegar í langtímasamningum við SkyUp út árið 2027. Þessir samningar tryggja stöðugar tekjur með minni áhættu og sýna að það er mikil eftirspurn eftir vélum okkar. Við höfum nú þegar náð samkomulagi um leigu á einni vél til viðbóta sem losnar þegar við hættum flugi til Bandaríkjanna og höfum einnig hafið viðræður um leigu á annarri vél til viðbótar. Ákvörðun okkar um að hætta Bandaríkjaflugi gerir okkur kleift að einblína á arðbærar flugleiðir og nýta flugflota okkar í arðbær leiguverkefni.“
Félagið hafi stigið ákveðinn skref til að styðja við breytingar á rekstri félagsins og í júlí tryggði félagið sér 20 milljónir dala í nýtt fjármagn í gegnum skuldabréfaútboð með breytirétti, með öflugum stuðningi stærstu hluthafa og fagfjárfesta.
„Við erum langt komin með þessa umbreytingu á viðskiptalíkani okkar. Nú snýst þetta um útfærslu með agaðri nýtingu – að nýta fluggetu þar sem arðsemin er mest, viðhalda traustri þjónustu og fjölga tekjustoðum. Með því mótum við sterkari og sjálfbærari framtíð fyrir Play,“ segir Einar Örn að lokum en breytingum á viðskiptalíkaninu verður að fullu lokið í október, þegar fjórar vélar verða í rekstri frá Íslandi.