Félög á aðalmarkaði kauphallarinnar eru í síauknum mæli farin að líta til endurkaupa sem leiðar til að skapa virði fyrir hluthafa. Ólíkt arðgreiðslum skila endurkaup sér ekki í beinni greiðslu til þeirra hluthafa sem halda bréfum sínum, heldur verður virðisaukningin til á annan hátt þar sem hagnaður félaganna deilist nú á færri hluti - hagnaður á hvern hlut verður því að öllu óbreyttu hærri. Því verður þó að halda til haga að ágóðinn af endurkaupum er mun óvissari heldur en af arðgreiðslum og er þegar upp er staðið háður gengi félagsins og markaðsaðstæðum.

Endurkaup síðasta árs á aðalmarkaði námu samtals ríflega 40 milljörðum króna, sem var tæplega fjórföldun miðað við síðustu tvö ár. Þar munaði mestu um endurkaup Arion banka á 200 milljónum hluta fyrir alls tæpa 29 milljarða króna, en eins og áður kom fram var arðgreiðsla bankans einungis tæpir þrír milljarðar króna á síðasta ári. Sé miðað við þá einföldu forsendu að V/H hlutfall bankans haldist hið sama veittu hlutafjárkaupin 13,2 prósent ávöxtun í ljósi samsvarandi hækkunar hagnaðar á hlut miðað við ársbyrjun. Arðgreiðsluhlutfall Arion og endurkaup skiluðu því um 15 prósent ávöxtun á hlut í fyrra miðað við þessar forsendur.

Á eftir Arion banka keypti Síminn eigin bréf fyrir hæsta fjárhæð á síðasta ári, eða tæpa þrjá milljarða króna. Arðgreiðsluhlutfall Símans var það lægsta á síðasta ári, eða um 0,7 prósent, en félagið var þess í stað þeim mun virkara í endurkaupum. Alls keypti Síminn tæp 14 af bréfum sínum af árinu og miðað við ofangreindar forsendur um fast V/H hlutfall skiluðu þau endurkaup sér í 16 prósenta ávöxtun, sem þýðir tæplega 17 prósenta heildarávöxtun á árinu, hærra en hjá nokkru öðru félagi á aðalmarkaði á síðasta ári.

VÍS var einnig meðal virkustu félaga í endurkaupum á síðasta ári. Arðgreiðsluhlutfallið var 5,7 prósent það ár, en að auki keypti félagið 144 milljónir hluta fyrir 2,6 milljarða króna sem skilaði aukinni 8,3 prósenta ávöxtun á hlut, eða samtals 14 prósenta ávöxtun.

Enn er of snemmt að segja til um hve mikil endurkaup fyrirtækja á aðalmarkaði verða á þessu ári. Fjöldi þeirra hefur þegar hafið kaup á eigin bréfum en óvíst er hvort stórauknar arðgreiðslur á milli ára muni einnig skila sér í auknum endurkaupum, eða hvort félögin kjósi nú frekar að því að skila hluthöfum ávöxtun í formi arðgreiðslna.

Sýn hefur árið á endurkaupum

Meðal þeirra félaga á aðalmarkaði sem greiddu hvorki arð né keyptu eigin bréf á síðasta ári var Sýn. Félagið tilkynnti hins vegar fyrirhugaða endurkaupaáætlun til Kauphallarinnar þann 12. janúar síðastliðinn og lauk henni í byrjun mánaðar. Alls keypti Sýn um 2,47 prósent af útgefnum hlutum í félaginu fyrir tæplega 470 milljónir króna. Félagið hyggst ekki greiða arð á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .