Samkvæmt nýbirtum tölum frá Seðlabankanum nam halli á viðskiptum við útlönd 90 milljörðum króna í fyrra. Það er mun lakari niðurstaða en árið á undan þegar 24 milljarða króna afgangur mældist, að því er kemur fram í hagsjá Landsbankans. Niðurstaðan var alls 114 milljörðum króna lakari en 2020.

Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2012 sem halli mælist á viðskiptum við útlönd. Á árunum 2013-2020 mældist samfelldur afgangur upp á samtals 960 milljarða króna. Ef horft er framhjá innlánastofnunum í slitameðferð var síðast halli á viðskiptum við útlönd árið 2011. Heildarafgangurinn án innlánastofnana í slitameðferð þessi 9 ár nam 1.040 milljörðum króna.

Hrein staða við útlönd batnar milli ára

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 5,1 þúsund milljörðum króna í lok árs 2021, þar af jókst erlend verðbréfaeign um 591 milljarða á milli ára. Erlendar skuldir námu 3,8 þúsund milljörðum króna. Samkvæmt mati Seðlabankans var hrein staða við útlönd því jákvæð um 1,3 þúsund milljarða króna á síðasta ári, eða um 40% af vergri landsframleiðslu. Staðan batnaði um 315 milljarða króna á árinu.