MF 104 ehf., fasteignafélag í eigu Bjarna Pálssonar landeiganda í Brautarholti á Kjalarnesi, hagnaðist um 955 milljónir króna árið 2020. Hagnaðurinn var að mestu vegna hækkunar á virði fasteignasafns félagsins en matsbreyting fjárfestingaeigna nam 1,2 milljörðum króna.

Húsaleigutekjur voru 317 milljónir króna árið 2020. Eigur félagsins námu 6,3 milljörðum í árslok 2020 og þar af voru fasteignir metnar á 5,9 milljarða króna en eigið fé var 2,9 milljarðar króna. Brunabótamat fasteigna félagsins á höfuðborgarsvæðinu var 1,8 milljarðar króna árið 2020 en 4,3 milljarðar utan þess en þar er verðmætasta eignin húsnæði flughótelsins H-57, við Hafnargötu 57  í Reykjanesbæ.

Hótelið fékk svigrúm til greiðslu leigu á árinu sökum áhrifa heimsfaraldursins. Í skýringum með ársreikningnum segir að MF 104 standi styrkum fótum fjárhagslega og stjórnendur séu bjartsýnir að starfsemin færist aftur í eðlilegt horf á komandi misserum.