JBT Marel hefur metið áhrif af tollað­gerðum Bandaríkjanna en sam­kvæmt mati félagsins gætu tollar kostað félagið um 80–95 milljónir Bandaríkja­dali ár­lega.

Þetta kemur fram í ný­birtri upp­færðri af­komu­spá félagsins fyrir árið 2025, þar sem jafn­framt er gert ráð fyrir lægri fram­legð á þriðja árs­fjórðungi vegna tolla.

Í sundur­liðaðri tolla­greiningu kemur fram að inn­flutningur frá Evrópu­sam­bandinu, sem er u.þ.b. 200 milljónir dollara, gæti leitt til 35–45 milljón dollara tolla­kostnaðar á ári.

Sam­tals er áætlaður tolla­kostnaður JBT Marel um 80–95 milljónir dollara á ári, sem svarar til 20–25 milljóna Bandaríkja­dala á árs­fjórðungi, en um er að ræða kostnað án að­gerða frá fyrir­tækinu.

Fyrir­tækið reiknar þó með að nettó áhrif tollanna í seinni hluta ársins verði 10–15 milljónir dollara, eftir að­gerðir til að draga úr beinum áhrifum.

Til skemmri tíma hyggst JBT Marel minnka áhrifin með því að þrýsta á birgja um af­slætti og sam­eina inn­kaup til að lækka eininga­verð. Félagið hyggst hækka verð á íhlutum frá og með 1. maí og endur­verð­leggja pantanir sem eru þegar í bið eða samningum.

Til lengri tíma telur félagið nauð­syn­legt að flytja hluta fram­leiðslu­keðjunnar úr há­tolla­löndum til lág­tolla­landa. Félagið metur jafn­framt mögu­leika á flutningi sam­setningar á búnaði fyrir bandaríska markaðinn til landa með lægri tolla.

Undirliggjandi rekstur áfram góður

JBT Marel hefur í kjölfarið endur­matið af­komu­spá sína fyrir árið 2025 en í upp­færðri af­komu­spá er gert ráð fyrir heildar­tekjum á bilinu 3,67 - 3,72 milljörðum dala.

Hagnaðar­mörk (GAAP EPS) eru neikvæð, á bilinu 1,90 til 1,20 dalir, sem endur­speglar mikinn kostnað tengdan yfir­tökunni á Marel og fjár­hags­legri endur­skipu­lagningu.

Hins vegar er reiknað með EBITDA-fram­legð á bilinu 15,25–16,0%.

Þrátt fyrir þrýsting vegna ytri þátta, s.s. verðbólgu í að­fanga­keðju, gjald­miðla­breytinga og tolla, segist fyrir­tækið hafa áfram­haldandi trú á sam­legðaráhrifum af sam­runanum og telur að sam­einað félag hafi víðtækan rekstrar­legan sveigjan­leika og yfir­burði í vöruúr­vali.

Áfram­haldandi að­gerðir og viðhald sam­keppnis­hæfni munu þó ráðast af því hvernig tolla­um­hverfið þróast á komandi misserum.

Rekstrar­hagnaður JBT Marel, sam­einaðs félags Marel og bandaríska tækni­fyrir­tækisins JBT, fyrir af­skriftir og ein­skiptis­kostnað (e. adju­sted EBITDA) nam 268 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins.

Af­koma félagsins er sterk þegar horft er til hefðbundins rekstrar.

Til saman­burðar var EBITDA-af­koma félagsins um 121 milljón dala á sama tíma­bili í fyrra.