JBT Marel hefur metið áhrif af tollaðgerðum Bandaríkjanna en samkvæmt mati félagsins gætu tollar kostað félagið um 80–95 milljónir Bandaríkjadali árlega.
Þetta kemur fram í nýbirtri uppfærðri afkomuspá félagsins fyrir árið 2025, þar sem jafnframt er gert ráð fyrir lægri framlegð á þriðja ársfjórðungi vegna tolla.
Í sundurliðaðri tollagreiningu kemur fram að innflutningur frá Evrópusambandinu, sem er u.þ.b. 200 milljónir dollara, gæti leitt til 35–45 milljón dollara tollakostnaðar á ári.
Samtals er áætlaður tollakostnaður JBT Marel um 80–95 milljónir dollara á ári, sem svarar til 20–25 milljóna Bandaríkjadala á ársfjórðungi, en um er að ræða kostnað án aðgerða frá fyrirtækinu.
Fyrirtækið reiknar þó með að nettó áhrif tollanna í seinni hluta ársins verði 10–15 milljónir dollara, eftir aðgerðir til að draga úr beinum áhrifum.
Til skemmri tíma hyggst JBT Marel minnka áhrifin með því að þrýsta á birgja um afslætti og sameina innkaup til að lækka einingaverð. Félagið hyggst hækka verð á íhlutum frá og með 1. maí og endurverðleggja pantanir sem eru þegar í bið eða samningum.
Til lengri tíma telur félagið nauðsynlegt að flytja hluta framleiðslukeðjunnar úr hátollalöndum til lágtollalanda. Félagið metur jafnframt möguleika á flutningi samsetningar á búnaði fyrir bandaríska markaðinn til landa með lægri tolla.
Undirliggjandi rekstur áfram góður
JBT Marel hefur í kjölfarið endurmatið afkomuspá sína fyrir árið 2025 en í uppfærðri afkomuspá er gert ráð fyrir heildartekjum á bilinu 3,67 - 3,72 milljörðum dala.
Hagnaðarmörk (GAAP EPS) eru neikvæð, á bilinu 1,90 til 1,20 dalir, sem endurspeglar mikinn kostnað tengdan yfirtökunni á Marel og fjárhagslegri endurskipulagningu.
Hins vegar er reiknað með EBITDA-framlegð á bilinu 15,25–16,0%.
Þrátt fyrir þrýsting vegna ytri þátta, s.s. verðbólgu í aðfangakeðju, gjaldmiðlabreytinga og tolla, segist fyrirtækið hafa áframhaldandi trú á samlegðaráhrifum af samrunanum og telur að sameinað félag hafi víðtækan rekstrarlegan sveigjanleika og yfirburði í vöruúrvali.
Áframhaldandi aðgerðir og viðhald samkeppnishæfni munu þó ráðast af því hvernig tollaumhverfið þróast á komandi misserum.
Rekstrarhagnaður JBT Marel, sameinaðs félags Marel og bandaríska tæknifyrirtækisins JBT, fyrir afskriftir og einskiptiskostnað (e. adjusted EBITDA) nam 268 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins.
Afkoma félagsins er sterk þegar horft er til hefðbundins rekstrar.
Til samanburðar var EBITDA-afkoma félagsins um 121 milljón dala á sama tímabili í fyrra.