Niels Gregers Han­sen hefur á 35 ára starfs­ferli í mann­auðs­stjórnun í fjár­mála­geiranum tekið þátt í brott­rekstri tuga starfs­manna.

Reynslan hefur kennt honum eitt um­fram allt: Að­ferðin sem notuð er við starfs­lok skiptir öllu máli, ekki aðeins vegna laga­legra at­riða heldur einnig þarf að huga að mann­legu hliðinni.

„Ég mann ennþá mjög vel fyrsta skiptið sem ég þurfti að segja upp starfsmanni. Ég var ekki nægi­lega undir­búinn og var í raun ekki fag­legur. Það var á tímum þar sem enginn þjálfaði stjórn­endur í slíku,“ segir Han­sen í viðtali við Børsen.

Han­sen hefur meðal annars starfað sem mann­auðs­stjóri hjá Nor­dea og Nykredit en í dag er hann ráðgjafi hjá Hudson Nor­dic.

Ferlið skiptir meira máli en réttindi

Han­sen bendir á að oft hafi fyrir­tæki of mikla áherslu á laga­leg at­riði við starfs­lok, til dæmis launa­upp­gjör, or­lof og upp­sagnar­frest, en van­ræki það sem skiptir mestu máli: upp­lifun starfs­mannsins.

„Þú getur ekki ætlast til þess að viðkomandi sé sáttur við ákvörðunina en þú getur tryggt að ferlið sé eins heiðar­legt og að­gengi­legt og mögu­legt er,“ segir hann.

Í hans augum hefst fag­legt upp­sagnar­ferli löngu áður en ákvörðun er tekin. Mikilvægast sé að vera í reglu­legu sam­bandi við starfs­menn og gefa þeim raun­hæfa mynd af stöðunni.

„Ef ein­hverjum er sagt upp og upp úr þurru, án þess að samtöl um vanda­mál hafi átt sér, líður honum eins og hann hafi fengið skilnað án viðvörunar. En ef þú hefur rætt stöðuna opinskátt, þá er ákvörðunin ekki jafn yfir­þyrmandi,“ út­skýrir Han­sen.

Sam­kvæmt Hansen þarf stjórnandi að hafa skýra sýn á eftir­farandi hlutum áður en hann segir starfs­manni upp:

  • Af hverju ákvörðunin er tekin
  • Hvernig hún verður út­skýrð
  • Hvað tekur við: á starfs­maður að hætta strax eða klára upp­sagnar­frest?

Í sam­talinu sjálfu er mikilvægt að stjórnandi standi með ákvörðuninni. Ekki kenna yfir­stjórn, niður­skurði eða „aðstæðum“ um. Ábyrgðin liggur hjá þeim sem fram­kvæmir upp­sögnina.

„Þú ert að tala við mann­eskju sem er í áfalli. Þú þarft stundum að hjálpa henni að átta sig á hvað er best að gera í þeirri stund,“ segir Han­sen. „Þú verður líka að gefa viðkomandi rými. Sumir verða reiðir og segja óþægi­lega hluti. En sem stjórnandi verður þú að þola það – þeir eru í upp­námi og það er mann­legt.“

Han­sen rifjar upp upp­sögn snemma á ferlinum sem fór illa.

„Átta árum síðar sá ég viðkomandi hjóla á móti mér við Tivoli. Hún steig af hjólinu, lagði það frá sér og kom að mér og kallaði mig alls kyns nöfnum og spurði hvort ég væri enn á lífi. Þá vissi ég að hún hafði aldrei jafnað sig og að ég hafði klikkað í mínu hlut­verki.“

Hann segir að lokum að það að reka fólk sé aldrei auðvelt en með virðingu, heiðar­leika og undir­búningi megi milda áfallið og stuðla að því að viðkomandi geti horft áfram frekar en aftur.

„Það sem skiptir mestu máli er að hafa djúpa virðingu fyrir áhrifunum sem upp­sögn hefur. Það eru raun­veru­leg áhrif, sem geta fylgt fólki í mörg ár. Því er skylda stjórnanda að láta ferlið standast tímans tönn,“ segir Han­sen.