Niels Gregers Hansen hefur á 35 ára starfsferli í mannauðsstjórnun í fjármálageiranum tekið þátt í brottrekstri tuga starfsmanna.
Reynslan hefur kennt honum eitt umfram allt: Aðferðin sem notuð er við starfslok skiptir öllu máli, ekki aðeins vegna lagalegra atriða heldur einnig þarf að huga að mannlegu hliðinni.
„Ég mann ennþá mjög vel fyrsta skiptið sem ég þurfti að segja upp starfsmanni. Ég var ekki nægilega undirbúinn og var í raun ekki faglegur. Það var á tímum þar sem enginn þjálfaði stjórnendur í slíku,“ segir Hansen í viðtali við Børsen.
Hansen hefur meðal annars starfað sem mannauðsstjóri hjá Nordea og Nykredit en í dag er hann ráðgjafi hjá Hudson Nordic.
Ferlið skiptir meira máli en réttindi
Hansen bendir á að oft hafi fyrirtæki of mikla áherslu á lagaleg atriði við starfslok, til dæmis launauppgjör, orlof og uppsagnarfrest, en vanræki það sem skiptir mestu máli: upplifun starfsmannsins.
„Þú getur ekki ætlast til þess að viðkomandi sé sáttur við ákvörðunina en þú getur tryggt að ferlið sé eins heiðarlegt og aðgengilegt og mögulegt er,“ segir hann.
Í hans augum hefst faglegt uppsagnarferli löngu áður en ákvörðun er tekin. Mikilvægast sé að vera í reglulegu sambandi við starfsmenn og gefa þeim raunhæfa mynd af stöðunni.
„Ef einhverjum er sagt upp og upp úr þurru, án þess að samtöl um vandamál hafi átt sér, líður honum eins og hann hafi fengið skilnað án viðvörunar. En ef þú hefur rætt stöðuna opinskátt, þá er ákvörðunin ekki jafn yfirþyrmandi,“ útskýrir Hansen.
Samkvæmt Hansen þarf stjórnandi að hafa skýra sýn á eftirfarandi hlutum áður en hann segir starfsmanni upp:
- Af hverju ákvörðunin er tekin
- Hvernig hún verður útskýrð
- Hvað tekur við: á starfsmaður að hætta strax eða klára uppsagnarfrest?
Í samtalinu sjálfu er mikilvægt að stjórnandi standi með ákvörðuninni. Ekki kenna yfirstjórn, niðurskurði eða „aðstæðum“ um. Ábyrgðin liggur hjá þeim sem framkvæmir uppsögnina.
„Þú ert að tala við manneskju sem er í áfalli. Þú þarft stundum að hjálpa henni að átta sig á hvað er best að gera í þeirri stund,“ segir Hansen. „Þú verður líka að gefa viðkomandi rými. Sumir verða reiðir og segja óþægilega hluti. En sem stjórnandi verður þú að þola það – þeir eru í uppnámi og það er mannlegt.“
Hansen rifjar upp uppsögn snemma á ferlinum sem fór illa.
„Átta árum síðar sá ég viðkomandi hjóla á móti mér við Tivoli. Hún steig af hjólinu, lagði það frá sér og kom að mér og kallaði mig alls kyns nöfnum og spurði hvort ég væri enn á lífi. Þá vissi ég að hún hafði aldrei jafnað sig og að ég hafði klikkað í mínu hlutverki.“
Hann segir að lokum að það að reka fólk sé aldrei auðvelt en með virðingu, heiðarleika og undirbúningi megi milda áfallið og stuðla að því að viðkomandi geti horft áfram frekar en aftur.
„Það sem skiptir mestu máli er að hafa djúpa virðingu fyrir áhrifunum sem uppsögn hefur. Það eru raunveruleg áhrif, sem geta fylgt fólki í mörg ár. Því er skylda stjórnanda að láta ferlið standast tímans tönn,“ segir Hansen.