Aðalheiður Snæbjarnardóttir hefur tekið við nýrri stöðu sjálfbærnistjóra Landsbankans en hún hefur unnið að sjálfbærnimálum hjá bankanum frá árinu 2019. Í tilkynningu er tekið fram að hún muni vinna náið með starfsfólki vítt og breitt um bankann.

„Með þessari nýju stöðu viljum við skerpa enn frekar fókusinn á sjálfbærnimálin sem verða sífellt mikilvægari og eru stór þáttur í okkar starfi,“ segir í tilkynningu á vef bankans.

Aðalheiður starfaði sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í samfélagsábyrgð áður en hún hóf störf hjá Landsbankanum. Þar áður var hún vörumerkjastjóri Ölgerðarinnar. Aðalheiður er í dag stjórnarmaður Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Hún er með M.Sc. gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá HR.

Aðalheiður Snæbjarnardóttir:

„Sjálfbærnimálin teygja anga sína inn á öll svið bankans og út í samfélagið. Hlutverk mitt er að tryggja að þjónustustig málaflokksins uppfylli kröfur bankans og einnig að við séum að uppfylla allar skuldbindingar okkar út á við. Umfang sjálfbærnimála hjá bankanum jókst umtalsvert á árinu 2021 og við erum hvergi nærri hætt.

Það verður nóg að gera nú á áratug aðgerða og munu fjármálafyrirtæki gegna lykilhlutverki í því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C. Því markmiði þurfum við að ná til að tryggja afkomu og lífsgæði mannkyns til frambúðar. Landsbankinn ætlar sér að vera áfram leiðandi í starfi fjármálafyrirtækja í sjálfbærnimálum.“