Þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur varað við að nýir tollar Bandaríkjanna muni auka kostnað fyrirtækisins um allt að 200 milljónir dala, eða hátt í 25 milljarða króna, á seinni helmingi ársins. Financial Times greinir frá.

Hlutabréfaverð Adidas hefur fallið um meira en 7% við opnun markaða í dag og hefur ekki verið lægra í ár.

Norski forstjóri Adidas, Bjørn Gulden, sagði að tollar hefðu þegar kostað fyrirtækið tugmilljónir evra á öðrum ársfjórðungi og varaði við að álagning tolla gæti haft neikvæð áhrif á eftirspurn neytenda ef hún leiðir til verðbólguskots.

Bandaríkin, undir stjórn Donalds Trumps forseta, hefur lagt á umfangsmikla tolla á nokkur lönd sem eru mikilvæg í virðiskeðju Adidas, þar á meðal Víetnam og Indónesíu, þar sem stór hluti framleiðslunnar fer fram.

Gulden hefur áður sagt að tollar muni á endanum leiða til verðhækkana á íþróttaskóm á bandaríska markaðnum.

Forstjórinn sagði á fjárfestafundi vegna annars árshlutauppgjörs að undir venjulegum kringumstæðum hefði Adidas hækkað afkomuspá sína eftir öfluga byrjun á árinu. Félagið telji það hins vegar ekki skynsamlegt í ljósi óvissu í rekstrarumhverfinu.

Nettó sala Adidas á öðrum ársfjórðungi jókst um 2,2% milli ára og nam nærri 6 milljörðum evra. Tekjur félagsins jukust á öllum mörkuðum og í öllum vöruflokkum. Sala á fatnaði jókst um 17%.

Afkomuspá Adidas gerir ráð fyrir rekstrarhagnaði á bilinu 1,7-1,8 milljörðum evra, en greiningaraðilar höfðu spáð því að hún yrði færð upp í 2,1 milljarð dala.