Heildsalan Core ehf. hagnaðist um tæplega 200 milljónir króna í fyrra samanborið við tæplega 150 milljónir árið 2017. Nemur aukningin á milli ára um 30%.

Core, sem er í eigu hjónanna Ársæls Þórs Bjarnasonar og Kamillu Sveinsdóttur,  hefur sérhæft sig í innflutningi á heilsuvörum. Má nefna vörur undir merkjum Froosh, Barebells, QNT (hét áður Natures Best), Cawston Press, Gold Cheats, Vitamin Well og Popcorners. Frægasta vörumerkið er samt án vafa Nocco en drykkir undir því merki hafa selst gríðarlega vel síðustu ár.„Við höfum oft náð flugi með ýmsum vörum en þó aldrei eins og núna með Nocco. Þó ég hafi fyrirfram talið að Nocco væri spennandi vara inn á markaðinn þá viðurkenni ég alveg að þessar gríðarmiklu vinsældir hafa komið mér á óvart," sagði Ársæll Þór í viðtali við Viðskiptablaðið í lok síðasta árs.

Core er 20 ára gamalt fyrirtæki. Lykiltölur í rekstri fyrirtækisins endurspegla mikinn vöxt þess síðustu ár. Sem dæmi þá námu rekstrartekjurnar 440 milljónum króna árið 2016 en árið 2018 voru þær komnar í tæpa 1,8 milljarða króna. Á tveimur árum jukust tekjurnar því um 310%. Á sama tímabili jókst hagnaðurinn úr 23 milljónum króna í 193 milljónir, eða um 740%.

Eignir Core námu 109 milljónum í lok árs 2016 en tæplega 600 í lok síðasta árs. Nemur aukningin um 450%. Frá 2016 hefur eigið fé aukist úr 48 milljónum í 303 milljónir eða um 530%.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Reynsluboltar í ferðaskrifstofubransanum hafa opnað nýja ferðaskrifstofu.
  • Stjórn Lindarhvols vildi láta eyða kvörtunum um störf sín.
  • Umfjöllun um fyrirhugaðan samruna Allrahanda GL og Reykjavík Sightseeing.
  • Fjallað er um hvenær Boeing 737 Max geti snúið aftur í loftið.
  • Prófessor í tölvunarfræði sem hefur kennt nýsköpunarnámskeið í rúm þrjátíu ár, er tekinn tali.
  • Fjármálafyrirtæki og hagsmunaaðilar leggjast gegn brotthvarfi húsnæðisliðs úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
  • Úttekt á afkomu síðasta árs hjá fjórum af stærstu heildsölum landsins.
  • Framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair er í ítarlegu viðtali.
  • Ný íslensk hlaðvörp hafa sprottið upp eins og gorkúlur undanfarin misseri.
  • Gjaldeyrisafleiður reyndust gjaldþrota fasteignafélagi dýrkeyptar.
  • Rætt er við nýjan fjármála- og rekstrarstjóra Lauf Cycling.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um rætna umræðu í garð fjölskyldna stjórnmálamanna.
  • Óðinn skrifar um deilur sem nú eru í gangi innan lögreglunnar.