Jenný Ruth Hrafnsdóttir, einn af stofnendum Crowberry Capital, segir um fjórðung af félögum í eignasafni þeirra finna fyrir verulegum áhrifum af stríðinu í Úkraínu. Þessi félög séu með starfsmenn í Úkraínu eða noti þjónustu þaðan og útvista þá einstaka hlutum starfseminnar þangað.

„Þetta er stafræn þróun sem er keypt þaðan - forritun, grafísk hönnun og útlitshönnun tölvuleikja. Þetta er mikil áskorun fyrir teymi sem eru að hluta til í Úkraínu," segir Jenný Ruth.

Hún nefnir að fjárfestar, sem gætu hugsanlega verið meðfjárfestar þeirra, sem eru staðsettir í London eru að lenda í því að geta ekki kallað inn fjármagn frá hluthöfum vegna þess að hluthafarnir eru með fjármagn í Rússlandi.

„Jafnvel þó að hluthafar geti greitt og vilji greiða þá vilja fyrirtækin ekki fá peningana og þurfa því að gera önnur plön. Þetta hefur ekki bein áhrif á okkur þar sem við erum ekki með neina hluthafa frá Rússlandi en þetta er að hafa óbein áhrif," segir Jenný Ruth en hún segir Crowberry nú munu aðlaga sig að breyttum veruleika.

Mikilvægt að fylgja þvingunum

Ásthildur Otharsdóttir, einn eigenda og fjárfestingastjóra Frumtak Ventures, segir það vera mjög mismunandi eftir félögum hver áhrifin af stríðinu eru. Þá nefnir hún að stríðið hafi ekki einungis áhrif á teymin í Úkraínu heldur líka nærliggjandi löndum.

„Þótt það hafi ekki verið settar eins ríkar viðskiptaþvinganir á Hvíta Rússland þá er orðið meiri háttar mál að koma greiðslum til og frá landinu," segir Ásthildur en eitt af félögum Frumtaks er með þróunarteymi þar.

Hún segir Frumtak leggja megináherslu á að aðstoða félögin í sínu eignasafni sem hafi hluta af starfsemi sinni í þessum löndum.

„Við erum með félag í eignasafninu sem er að aðstoða sitt fólk á þessum slóðum við að flýja - til að mynda við að finna húsnæði í nærliggjandi löndum." Þau leggja einnig mikla áherslu á að tryggja að félögin séu meðvituð um þær viðskiptaþvinganir sem settar hafa verið og fari eftir þeim.

Þá nefnir hún einnig að sum félögin eða viðskiptavinir þeirra hafi verið með verkefni á teikniborðinu í Rússlandi sem séu í uppnámi núna.

„Við leggjum höfuðáherslu á að við séum að fylgja öllum viðskiptaþvingunum. Það er hins vegar ekki einfalt þar sem ekki er hægt að hugsa einangrað um Rússland í því samhengi," segir Ásthildur.

Fjallað var um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .