Sonal Desai, for­stöðumaður skulda­bréfa­fjár­festinga hjá Franklin Templet­on og einn áhrifa­mesti ein­stak­lingur skulda­bréfa­markaðarins sam­kvæmt MarketWatch, varar við of mikilli bjartsýni fjár­festa.

Desai segir mikilvægt fyrir fjár­festa að endur­meta væntingar um­þessara mundir og muna að skulda­bréf eigi fyrst og fremst að veita stöðug­leika, ekki ávöxtun sem líkist gengis­hækkun hluta­bréfa.

Desai, sem stýrir yfir 215 milljörðum dala, segir að margir fjár­festar geri sér nú of miklar vonir um ávöxtun skulda­bréfa, sér­stak­lega í ljósi þess að 10 ára bandarísk ríkis­skulda­bréf skila nú um 4,4% til 4,5%.

Hún segir að í ljósi þess hve mikið lausafé sé enn í um­ferð frá seðla­bankanu, séu þessi bréf ekki sér­lega aðlaðandifjár­festingar­kosturr en Desai var gestur í hlað­varpi Barry Rit­holtz í gær.

„Ég er fremur hlut­laus í af­stöðu minni, en tel að raun­virði 10 ára skulda­bréfa sé nær 4,75–5%. Því gæti verðið enn lækka, og vonir um mikla hækkun á verði eru óraun­hæfar,“ segir Desai.
„Fjár­festar eru farnir að telja að skulda­bréf geti skilað árangri sam­bæri­legum við hluta­bré.enn raun­veru­lega eiga þau að skila fremur óspennandi en áreiðan­legri ávöxtun.“

Hún bendir á að fjár­festar hafi í gegnum tíðina vanist lágum vöxtum – oft í kringum 1–2,5% – og jafn­vel greitt ríkinu með því að lána því fé. Nú bjóðist jákvæð raunávöxtun, sem sé jákvætt, en krefst jafn­framt raunsærra væntinga.

Desai varar við því að of mikið lausafé á markaði leiði til þess að fjár­festar sæki í of áhættu­samar fjár­festingar, í þeirri trú að markaðurinn sé rétt verðlagður og áhættu­laus.

Hún segir mikilvægt sé að forðast að taka of mikla áhættu á núverandi verðlagi:

„Ég býst ekki við sam­drætti í hag­kerfinu, en úti­loka ekki að ytri áföll – líkt og heims­far­aldur – geti valdið skamm­vinnri niður­sveiflu með varan­legum af­leiðingum.“

Desai leggur áherslu á að fjár­festar ættu að ein­beita sér að skulda­bréfum með stuttan gjald­daga, þar sem hætta sé á áfram­haldandi hækkun á langtíma­vöxtum.

Hún nefnir sér­stak­lega svo­kallaðar ultra­stuttar fjár­festingar, þar sem bréfin eru að jafnaði með gjald­daga innan árs:

„Það er skyn­sam­legt að hefja fjár­festingu við stutta endann á vaxtakúrfunni og færa sig síðan út eftir því sem tækifæri bjóðast.“

Að lokum bendir Desai á að lítil um­ræða sé um fjár­laga­halla Bandaríkjanna, sem hafi verið viðvarandi um ára­bil. Hún segir að ekki verði komist hjá því að grípa til að­gerða:

„Á ein­hverjum tíma­punkti þarf að ráðast í breytingar á stefnu sem draga veru­lega úr hallanum. Ég tel afar ólík­legt að það verði gert án þess að hægja á hag­vexti. Þetta er enn ein ástæða þess að Seðla­bankinn ætti ekki að ganga of langt í vaxtalækkunum.“