Sonal Desai, forstöðumaður skuldabréfafjárfestinga hjá Franklin Templeton og einn áhrifamesti einstaklingur skuldabréfamarkaðarins samkvæmt MarketWatch, varar við of mikilli bjartsýni fjárfesta.
Desai segir mikilvægt fyrir fjárfesta að endurmeta væntingar umþessara mundir og muna að skuldabréf eigi fyrst og fremst að veita stöðugleika, ekki ávöxtun sem líkist gengishækkun hlutabréfa.
Desai, sem stýrir yfir 215 milljörðum dala, segir að margir fjárfestar geri sér nú of miklar vonir um ávöxtun skuldabréfa, sérstaklega í ljósi þess að 10 ára bandarísk ríkisskuldabréf skila nú um 4,4% til 4,5%.
Hún segir að í ljósi þess hve mikið lausafé sé enn í umferð frá seðlabankanu, séu þessi bréf ekki sérlega aðlaðandifjárfestingarkosturr en Desai var gestur í hlaðvarpi Barry Ritholtz í gær.
„Ég er fremur hlutlaus í afstöðu minni, en tel að raunvirði 10 ára skuldabréfa sé nær 4,75–5%. Því gæti verðið enn lækka, og vonir um mikla hækkun á verði eru óraunhæfar,“ segir Desai.
„Fjárfestar eru farnir að telja að skuldabréf geti skilað árangri sambærilegum við hlutabré.enn raunverulega eiga þau að skila fremur óspennandi en áreiðanlegri ávöxtun.“
Hún bendir á að fjárfestar hafi í gegnum tíðina vanist lágum vöxtum – oft í kringum 1–2,5% – og jafnvel greitt ríkinu með því að lána því fé. Nú bjóðist jákvæð raunávöxtun, sem sé jákvætt, en krefst jafnframt raunsærra væntinga.
Desai varar við því að of mikið lausafé á markaði leiði til þess að fjárfestar sæki í of áhættusamar fjárfestingar, í þeirri trú að markaðurinn sé rétt verðlagður og áhættulaus.
Hún segir mikilvægt sé að forðast að taka of mikla áhættu á núverandi verðlagi:
„Ég býst ekki við samdrætti í hagkerfinu, en útiloka ekki að ytri áföll – líkt og heimsfaraldur – geti valdið skammvinnri niðursveiflu með varanlegum afleiðingum.“
Desai leggur áherslu á að fjárfestar ættu að einbeita sér að skuldabréfum með stuttan gjalddaga, þar sem hætta sé á áframhaldandi hækkun á langtímavöxtum.
Hún nefnir sérstaklega svokallaðar ultrastuttar fjárfestingar, þar sem bréfin eru að jafnaði með gjalddaga innan árs:
„Það er skynsamlegt að hefja fjárfestingu við stutta endann á vaxtakúrfunni og færa sig síðan út eftir því sem tækifæri bjóðast.“
Að lokum bendir Desai á að lítil umræða sé um fjárlagahalla Bandaríkjanna, sem hafi verið viðvarandi um árabil. Hún segir að ekki verði komist hjá því að grípa til aðgerða:
„Á einhverjum tímapunkti þarf að ráðast í breytingar á stefnu sem draga verulega úr hallanum. Ég tel afar ólíklegt að það verði gert án þess að hægja á hagvexti. Þetta er enn ein ástæða þess að Seðlabankinn ætti ekki að ganga of langt í vaxtalækkunum.“