Fyrir­huguð tolla­setning Evrópu­sam­bandsins gagn­vart ríkjum innan EES á járn­blendi, þar á meðal kísiljárn frá Ís­landi og Noregi, mun hafa mjög neikvæð áhrif á iðnaðinn hér­lendis.

Út­flutnings­tekjur kísiliðnaðar námu 40,2 milljörðum króna árið 2024 og hafa þær tvöfaldast á fimm árum.

Tvö fyrir­tæki stunda kísilmálm­fram­leiðslu hér á landi, Elkem á Grundar­tanga við Hval­fjörð og PCC á Bakka við Húsa­vík.

Alls voru um 1.400 starfandi í tengslum við kísiliðnaðinn á síðasta ári, þegar af­leidd/óbein störf og verk­takar eru taldir með. Heildar­fjöldi starfandi í verk­smiðjum kísiliðnaðar hér á landi var 351 á árinu 2024.

Framleiðslan skiptist í raun í tvær greinar, annars vegar kísilmálma sem til að mynda PCC framleiðir og er notaður í raftæki, snyrtivörur, blandað við ál og fleira og síðan kísiljárn sem Elkem á Grundartanga framleiðir.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það vonbrigði að þessar verndarráðstafanir ESB skuli ekki ná til kísilmálma heldur bara kísiljárns en Kína er einn stærsti framleiðandi kísilmálma í heiminum og hefur haft mikil áhrif á Evrópumarkaðinn.

Kallað hefur verið eftir verndarráðstöfunum á kísilmálm en PCC hætti starfsemi fyrir rúmri viku síðan vegna óhagfelldra ytri aðstæðna.

„Það er síðan alvarlegt mál að verndarráðstafanir ESB skuli ekki ná til okkar. Þannig að framleiðsla íslenskra fyrirtækja sé ekki vernduð. Þær bitna því meðal annars á okkur á meðan fyrirtæki innan ESB njóta góðs af verndaraðgerðunum,“ segir Sigurður.

Grunnhugsunin með aðgerðunum er að vernda evrópskan iðnað fyrir kísiljárni frá löndum með töluvert lægri framleiðslukostnað líkt og Kína, Indland eða Kasakstan.

Það hafa verið undirboð frá þessum aðilum á markaðinum en af þeim sökum er ESB að grípa til aðgerða.

„En undanskilur Ísland og Noreg frá þeim aðgerðum, sem bitnar á okkur. Við hefðum viljað njóta verndar, rétt eins og önnur fyrirtæki í þessari starfsemi innan ESB,“ segir Sigurður.

Hann segir að Ísland hafi óskað eftir undanþágu eða hagfelldari útfærslum og sé það til skoðunar

„Evrópusambandið ber fyrir sig jafnræði, með réttu eða röngu, meðal annars vegna mikillar framleiðslu í Noregi. En íslensk stjórnvöld hafa talað ötullega fyrir hagsmunum Íslands sem skilar vonandi árangri. “

Að sögn Sigurðar þarf að hafa í huga hvort þetta sé fyrirboði um hvað koma skal frá Evrópusambandinu en sem fyrr segir hefur það aldrei gerst að Ísland njóti ekki verndarráðstafana.

„Þá geta alls konar vörur orðið undir í framtíðinni og skaðað okkar hags­muni. Þetta er auðvitað sér­stakt af ýmsum sökum. Í fyrsta lagi vegna þess að við erum í EES og höfum því inn­leitt hluta af evrópska reglu­verkinu. Fyrir­tæki hér á landi í ýmissi starf­semi hafa tekið á sig skyldur og kröfur sem reglu­verkið knýr á, með til­heyrandi kostnaði, til þess að njóta ávinningsins af því að eiga greiðan að­gang að innri markaði ESB.“

„Það er því mjög skrýtið að við séum að taka upp regluverkið ef aðgangur að innri markaðnum er skertur.“

„Það er mikið í húfi“

Sigurður segir að ESB hafi einnig verið mjög umhugað um aðfangakeðjur að undanförnu og innleiddi nýverið regluverk sem eigi að tryggja aðgengi að hrávörum (e. Critical raw material act).

„Kísill er eitt af þessum mikilvægu hráefnum en það er ástæðan fyrir því að Kínverjar og Bandaríkjamenn hafa verið að auka framleiðsluna á kísil til að tryggja sér framboð. En þess vegna skýtur skökku við að við sem höfum innleitt regluverkið og útvegum hráefnið lendum í þessum aðgerðum.“

Hann segir að Ísland hafi verið traustur bandamaður ESB í fjölmörg ár og því sé sérstakt að verið sé að beita sér með þessum hætti gegn hagsmunum lands og þjóðar.

Spurður hvort það sé ekki með þessu verið að reyna ýta Íslandi inn í Evrópusambandið, vildi Sigurður ekki svara því að svo stöddu.

Sigurður segir efnahagslegt mikilvægi kísiliðnaðar á Íslandi vera töluvert. „Síðasta árið voru á annað þúsund manns sem starfa beint eða óbeint í þessum iðnaði.“

Staðan núna er þó fremur dökk. Annað fyrirtækið, PCC á Bakka, hefur þurft að stöðva framleiðslu vegna óhagfelldra ytri aðstæðna.

„Þessar verndarráðstafanir ESB, ef þær verða festar í sessi, ógna starfsemi Elkem,“ segir Sigurður.

Ef allt fer á versta veg og aðgerðirnar verða festar í sessi í þessari mynd til frambúðar verður lítið eftir af þessum iðnaði hérlendis en Sigurður segir að um sé að ræða mörg störf og tugmilljarða útflutningstekjur.

„Það er mikið í húfi og sérstaklega fyrir þau svæði þar sem þessi fyrirtæki eru starfandi,“ segir Sigurður.

„Það er ekki öll nótt úti enn að við fáum undanþágu þó að það sé langt í frá sjaldgefið. Þetta á að taka gildi eftir þrjár vikur og vara í 200 daga. Ef þetta fer þannig þá þurfum við að vona það að hagsmunagæslan á þessu tímabili beri þann árangur að við verðum undanþegin eftir það,“ segir Sigurður að lokum.