Ís­lands­banki hf. hefur gengið frá kaupréttar­samningum við 743 starfs­menn bankans í samræmi við kaupréttaráætlun sem samþykkt var á hlut­hafa­fundi 30. júní 2025.

Sam­kvæmt áætluninni fá starfs­menn rétt til að kaupa hluti í bankanum á hagstæðu verði á næstu fimm árum.

Rétturinn nær til allra fastráðinna starfs­manna bankans, að undan­skildum starfsmönnum innri endur­skoðunar, og er mark­mið hans að samræma betur langtíma­hags­muni starfs­fólks og bankans.

Á hverju ári frá og með 2026 til og með 2030 öðlast hver starfs­maður rétt til að kaupa hluta­bréf fyrir allt að 1.500.000 krónur, að lág­marki 100.000 krónur.

Há­marks­heildar­upp­hæð fyrir hvern starfs­mann er því 7.500.000 krónur. Nýtingar­tími kaupanna hefst í ágúst ár hvert, eftir birtingu sex mánaða upp­gjörs bankans.

Kaup­verð hluta­bréfanna er ákvarðað sem vegið meðal­verð í við­skiptum með hluti bankans í kaup­höll síðustu tíu við­skipta­daga fyrir undir­ritun samnings. Í ár er það verð 126,4 krónur á hlut.

Að sögn bankans hafa sam­tals 743 starfs­menn gert kaupréttar­samninga og ná þeir til allt að 8.817.181 hlutar á ári, miðað við fulla nýtingu.

Heildar­um­fang samninganna á fimm ára tíma­bili gæti því numið um 44 milljónum hluta, sem á núverandi gengi jafn­gildir rúm­lega 6,5 milljörðum króna.

Sam­kvæmt kaupréttaráætluninni þurfa starfs­menn að halda hlutum í að lág­marki tvö ár eftir kaup til að njóta skatta­legrar ívilnunar. Kaupréttinn verður að nýta innan fimmtán daga frá birtingu árs­hluta­upp­gjörs á öðrum árs­fjórðungi ár hvert. Eftir þann frest fellur rétturinn niður fyrir það ár.