Ríkissjóður lauk á öðrum ársfjórðungi 2025 síðasta áfanga söluferlis síns í Íslandsbanka með heildarsölu á þeim 42,5% hlut sem eftir stóð í eigu ríkisins.
Með þessu lauk formlega eignarhaldi ríkisins á bankanum, fjórum árum eftir að hlutafjárútboð átti sér fyrst stað.
Samkvæmt fjárfestakynningu bankans, sem birt var samhliða árshlutauppgjöri, fengu yfir 31 þúsund fjárfestar úthlutuð bréf í bankanum eftir söluna.
Heildarfjöldi hluthafa í Íslandsbanka var um 35 þúsund eftir söluna á eignarhluti ríkisins.
Lífeyrissjóðir eru í kjölfarið enn stærsti fjárfestahópurinn í bankanum með 35,9% hlutdeild í útgefnu hlutafé.
Minni fjárfestar eða einstaklingar eru hins vegar næststærsti hópurinn með 35,5% hlutdeild í útgefnu hlutafé.
Í lok júní var fjöldi hluthafa 31.700 sem sýnir að afar fáir hafi ákveðið að selja í bankanum eftir bréfin voru afhent.
Á fjórðungnum jukust viðskipti með hlutabréf bankans engu að síður um yfir 400% samanborið við sama tíma í fyrra.
Stjórnendur rekja aukninguna meðal annars til aukinnar útbreiðslu eignarhaldsins.
Lífeyrissjóður starfmanna ríkisins er stærsti hluthafi bankans með 8,2% en þar á eftir kemur Gildi með 7,3% hlut og Live með 5,8% hlut.

Til samanburðar er rétt að nefna að um 20 þúsund manns tóku þátt í frumútboði bankans árið 2021. Hluthafar voru þó orðnir 9,9 þúsund í árslok 2024.