Í árs­hluta­upp­gjöri Lands­bankans um miðjan mánuð var greint frá áhrifum Capi­tal Requirements Regulation III (CRR III), nýs reglu­verks Evrópu­sam­bandsins, á eignir bankans en áður höfðu Kvika, Arion og Ís­lands­banki birt slíkar upp­lýsingar.

Reglu­verkið, sem átti að taka gildi í sumar, verður að öllum líkindum inn­leitt í haust og mun lækka áhættu­grunn Lands­bankans um 64 milljarða króna og hækka eigin­fjár­hlut­fall bankans úr 24,0% í 25,0%.

Eins og Við­skipta­blaðið hefur greint frá er áætlað að nýja reglu­verkið lækki heildaráhættu­vegnar eignir (REA) ís­lenskra banka um á annað hundrað milljarða króna.

Ný­legar breytingar á reglu­verkinu gætu þó aukið það hlut­fall enn frekar þar sem Evrópska banka­eftir­lits­stofnunin (EBA) ákvað í byrjun júlí að breyta viðmiðunar­reglum um fram­kvæmdar­lán sem höfðu áður mjög neikvæð áhrif á ís­lenska banka og hækkuðu áhættu­grunn þeirra sem og eigin­fjár­bindingu.

Í reglu­verkinu var upp­haf­lega lagt upp með að hægt yrði að lækka áhættu­vog lán­veitinga til fram­kvæmda úr 150% niður í 100% ef verk­taki legði fram „veru­legt eigið fé“.

Sam­kvæmt drögum EBA átti þetta „veru­lega eigið fé“ að nema 35% af sölu­verðmæti eignar sem verið var að fara að byggja. Á Ís­landi hefur árum saman verið miðað við eigin­fjár­hlut­fall sem er í kringum 25% til 30% af fram­kvæmda­kostnaði.

Þetta yrði því tölu­verð breyting en sam­kvæmt óform­legri könnun SFF hjá bönkunum hefði ekkert fram­kvæmdalán á Ís­landi náð þessu eigin­fjár­hlut­falli og því hefðu öll fram­kvæmdalán verið í 150% áhættu­vog.

Þessi hætta virðist þó liðin hjá í bili, því sam­kvæmt nýjum viðmiðunar­reglum EBA þurfa verk­takar nú einungis 25% eigin­fjár­fram­lag svo að fram­kvæmdalán falli undir 100% áhættu­vog. Jákvæðu áhrif nýja reglu­verksins eru því meiri en áður var talið.

Þótt hlut­falls­leg áhrif nýja reglu­verksins séu mest hjá Kviku banka þá losnar um stærri fjár­hæð í Lands­bankanum en öðrum kerfis­lega mikilvægum bönkum sam­kvæmt út­reikningum bankanna sjálfra.

Þar sem ríkis­sjóður á 98,2% hlut í bankanum hefur Lands­bankinn ekki sama svigrúm til að ráðast í endur­kaup á eigin bréfum.

Í sam­tali við Við­skipta­blaðið svarar Hreiðar Bjarna­son fjár­mála­stjóri Lands­bankans nánar spurningum um áhrif reglu­verksins á fjár­hags­stöðu bankans og mögu­legar ráð­stafanir í kjölfarið.Áskrif­endur geta lesið ítar­lega um­fjöllun Viðskiptablaðsins hér.