Umboðsmaður Alþingis telur að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar, hafi ekki verið heimilt að setja Ásdísi Höllu Bragadóttur sem ráðuneytisstjóra nýs ráðuneytis til þriggja mánaða án auglýsingar.

Umboðsmaður Alþingis telur að aðrar leiðir hefðu verið færar til að ekki væri gengið gegn ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. „Við stofnun ráðuneytisins hefði orðið til nýtt embætti og ekki yrði séð að lögbundnar undantekningar frá því að auglýsa það laust til umsóknar, og setja tímabundið í embættið á þeim grundvelli sem ráðuneytið byggði á, ættu við um þá stöðu sem var uppi," segir á vef Umboðsmanns Alþingis.

„Umboðsmaður áréttar í álitinu mikilvægi þess að stjórnvöld fylgi þeim lagareglum sem gilda um veitingu opinberra starfa og embætta og virði þau markmið sem þeim er ætlað að þjóna. Það eigi ekki síst við um ráðuneyti sem fari með æðstu stjórn framkvæmdavald," segir Umboðsmaður.

Ráðherra hafi borið að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja starfsemi þess við stofnun þegar lá fyrir að stofna ætti nýtt ráðuneyti. Ef ekki hafi gefist nægur tími hafi aðrar leiðir verið færar að lögum til bráðabirgðaráðstafana.