Hagnaður fyrir skatta af starfsemi sænska fasteignafélagsins Heimstaden á Íslandi nam 589 milljónum sænskra króna, eða sem nemur 7,9 milljörðum íslenskra króna. Hagnaðurinn stafar aðallega af matsbreytingu fjárfestingareigna sem námu tæplega 7,8 milljörðum íslenskra króna. Ársreikningur Heimstaden, sem er skráð í sænsku kauphöllna, var birtur í gærkvöldi.

Sænska félagið keypti Heimstaden ehf., sem hét áður Heimavellir, síðasta sumar fyrir tæplega 25 milljarða króna af fasteignafélaginu Fredensborg, sem er jafnframt stærsti hluthafi samstæðunnar. Fredensborg á í dag 71% hlut í Heimstaden og fer með 96% af atkvæðarétti. Fredensborg, sem er í eigu norska auðkýfingsins Ivar Tollefsen , gerði yfirtökutilboð í Heimavelli í mars 2020 og tilkynnti stuttu síðar um að til stæði að afskrá félagið úr íslensku Kauphöllinni.

Í ársreikningi Heimstaden kemur fram að félagið hafi með kaupunum á Heimstaden ehf. í sumar eignast 1.637 íbúðir hér á landi en í árslok voru þær orðnar 1.654. Eignir Heimstaden á Íslandi voru bókfærðar á 4.494 milljónir sænskra króna, eða um 60 milljarða íslenskra króna, í árslok 2021.

Viðskiptablaðið sagði frá kaupum Heimstaden á 35 íbúða blokk í Grafarholti fyrir rúmu ári síðan. Félagið festi einnig kaup á 26 leiguíbúðum á Brynjureit við Hverfisgötu og Laugaveg síðasta sumar.

Auk Íslands þá hóf Heimstaden starfsemi í Bretlandi og Finnlandi á síðasta ári. „Við sjáum fram á að stækka verulega við okkur á þessum mörkuðum,“ segir í ársreikningi félagsins sem starfar nú í tíu Evrópulöndum.

Heimstaden samstæðan hagnaðist um 24,2 milljarða sænskra króna, eða um 324 milljarða íslenskra króna, fyrir skatta á síðasta ári. Fjárfestingareignir félagsins voru bókfærðar á 305,7 milljarða sænskra króna um áramótin en alls á félagið nærri 150 þúsund íbúðir.