Nýr tolla­samningur milli Evrópu­sam­bandsins og Bandaríkjanna kallar á endur­skoðun á rekstri hjá dönskum út­flutnings­fyrir­tækjum. For­stjórar út­flutnings­fyrir­tækja í Dan­mörku segja að samningurinn muni auka kostnað og jafn­vel tap. Þeir fagna því þó að óvissunni hafi verið eytt, samkvæmt Børsen.

Samningurinn, sem undir­ritaður var á sunnu­dag, felur í sér al­mennan 15 pró­senta toll á evrópskar vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna. Þetta hefur bein áhrif á fyrir­tæki þar sem Bandaríkin eru þeirra stærsti markaður.

Jan War­rer, for­stjóri Pressalit, sem sér­hæfir sig í hrein­lætis­búnaði og er leiðandi á sviði búnaðar fyrir fatlaða í Bandaríkjunum, segir ljóst að fyrir­tækið verði að bregðast hratt við:

„Bandaríkin eru lykil­markaður fyrir okkur og við verðum að laga okkur að nýjum veru­leika.“

Pressalit hyggst hækka verð til bandarískra við­skipta­vina en ætlar að gera það með ígrunduðum hætti. Mark­miðið er að bæta virði vörunnar og þjónustunnar í stað þess að velta tollaálaginu beint yfir á við­skipta­vininn:

„Auðveldast væri að hækka verðið um 15 pró­sent, en við viljum fremur færa við­skipta­vinum aukið virði í formi þjónustu og ráðgjafar.“

Fyrir­tækið, sem hefur 300 starfs­menn og veltir 385 milljónum danskra króna á ári, skoðar nú jafn­framt mögu­leikann á að hefja fram­leiðslu í Bandaríkjunum. War­rer segir þó ekki liggja fyrir ákvörðun en telur eðli­legt að kanna málið ítar­lega.

Af­pantanir nýr veru­leiki

Hjá lyftu­fram­leiðandanum Omme Lift í Suður-Jót­landi eru áhrifin þegar farin að koma fram.

Lars Omme, for­stjóri fyrir­tækisins, segir bandarískan dreifingaraðila hafa af­pantað pantanir eftir að tollarnir voru kynntir, þar sem kaup­endur vilji ekki taka á sig kostnaðar­aukann:

„Þetta er gríðar­lega svekkjandi. Við þurfum að ræða hvernig toll­kostnaðurinn skiptist ef hann telur sig ekki geta selt vörurnar áfram.“

Bandaríkja­markaður stendur undir um 40 pró­sentum af heildar­tekjum Omme Lift og því eru áhrifin þýðingar­mikil.

For­stjórinn segir mögu­legt að flytja hluta vinnslu­ferla til Bandaríkjanna eða beina sjónum að nýjum mörkuðum. Lönd á borð við Egypta­land, Sádi-Arabíu og Sam­einuðu arabísku fursta­dæmin eru þegar komin á radarinn.

Þrátt fyrir aukinn kostnað fagna stjórn­endur því að loks sé komin skýr tolla­regla, eftir margra mánaða óvissu og mis­vísandi yfir­lýsingar:

„Við höfum þurft að aðlaga okkur dag frá degi eftir yfir­lýsingum stjórnmálamanna. Nú vitum við hvar við stöndum og getum brugðist við,“ segir Lars Omme.

Jens Poul­sen, for­stjóri tísku­fyrir­tækisins DK Company, tekur í sama streng. Hann segir samninginn veita vissu, þó að tollarnir sjálfir séu þung­bærir.

„Það skiptir ekki öllu máli hvort manni líkar við samninginn eða ekki – nú vitum við hver tollapró­sentan er og getum tekið mið af því.“