Samtök at­vinnulífsins (SA), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað sam­eigin­legri um­sögn til fram­kvæmda­stjórnar ESB þar sem varað er við að fyrir­hugaðar breytingar á við­skipta­kerfi ESB með losunar­heimildir (ETS) muni leggja ósann­gjarnan og hlut­falls­lega meiri kostnað á ís­lenskt at­vinnulíf en á mörg önnur lönd.

Þreföld gjaldtaka fyrir umhverfið

Ís­land er háð sjóflutningum í nær öllum út- og inn­flutningi. Í um­sögninni er bent á að ís­lensk skipafélög þurfi að greiða 100% ETS-gjald á leiðum milli Ís­lands og Evrópu­sam­bandsins og 50% milli Ís­lands og Bandaríkjanna, en skip sem fara beint milli ESB og Bandaríkjanna greiða aðeins 50% fyrir alla leiðina.

Þetta skapar, að mati SA, ósann­gjarnt sam­keppnis­for­skot fyrir er­lenda keppi­nauta og getur hækkað flutnings­kostnað og jafn­vel aukið kol­efnislosun vegna breytinga á flutninga­leiðum.

Samtökin vara einnig við hættu á tvöfaldri eða jafn­vel þre­faldri gjald­töku, þar sem ís­lensk skip greiða nú þegar kol­efnis­gjald innan­lands, ETS-gjald innan Evrópu og gætu þurft að greiða alþjóð­legt gjald á vegum Alþjóða­siglinga­mála­stofnunarinnar (IMO).

Flugið undir þrýstingi

Ferðaþjónusta og alþjóða­tengsl Ís­lands byggja að stórum hluta á flug­sam­göngum, en langar vega­lengdir til og frá landinu gera ETS-kerfið hlut­falls­lega dýrara fyrir ís­lenskar flug­leiðir en aðrar í Evrópu. Sér­lausn sem Ís­land fékk árið 2026, þar sem hluti losunar­heimilda var áfram frítt út­hlutaður, rennur út í lok árs 2026. Ef ekki verður gripið til nýrra að­gerða gæti, að mati SA, sam­keppnis­staða Kefla­víkur­flug­vallar veikist veru­lega, farþega­fjöldi dregist saman og flug um Ís­land færist til annarra flug­valla.

SA hvetur til þess að leitað verði alþjóð­legra lausna, til dæmis með CORSIA-kerfinu, sem taki til allrar alþjóð­legrar flug­starf­semi og mis­muni ekki löndum eftir stað­setningu.

Orku­frekur iðnaður og kol­efnis­binding

Í um­sögninni er einnig varað við því að draga úr fríum losunar­heimildum fyrir orku­frekan iðnað, þar sem fram­leiðsla á áli og kísli felur í sér ó­hjá­kvæmi­legar efnafræði­legar losanir sem erfitt er að draga úr.

SA leggur áherslu á að kol­efnis­binding verði samræmd innan Evrópu og losunar­heimildir vegna bindingar verði fram­seljan­legar milli aðila.

Þungar af­leiðingar fyrir efna­hags­lífið

Samtökin segja að núverandi og fyrir­huguð út­færsla ETS muni auka kostnað fyrir sjóflutninga, flug og orku­frekan iðnað um­fram það sem sé sann­gjarnt, með neikvæðum áhrifum á sam­keppnis­hæfni, út­flutning, inn­flutning og ferðaþjónustu.

Ef ekkert verður að gert gæti þetta skaðað bæði efna­hags­legan stöðug­leika og alþjóða­tengsl Ís­lands til framtíðar.