Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað sameiginlegri umsögn til framkvæmdastjórnar ESB þar sem varað er við að fyrirhugaðar breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) muni leggja ósanngjarnan og hlutfallslega meiri kostnað á íslenskt atvinnulíf en á mörg önnur lönd.
Þreföld gjaldtaka fyrir umhverfið
Ísland er háð sjóflutningum í nær öllum út- og innflutningi. Í umsögninni er bent á að íslensk skipafélög þurfi að greiða 100% ETS-gjald á leiðum milli Íslands og Evrópusambandsins og 50% milli Íslands og Bandaríkjanna, en skip sem fara beint milli ESB og Bandaríkjanna greiða aðeins 50% fyrir alla leiðina.
Þetta skapar, að mati SA, ósanngjarnt samkeppnisforskot fyrir erlenda keppinauta og getur hækkað flutningskostnað og jafnvel aukið kolefnislosun vegna breytinga á flutningaleiðum.
Samtökin vara einnig við hættu á tvöfaldri eða jafnvel þrefaldri gjaldtöku, þar sem íslensk skip greiða nú þegar kolefnisgjald innanlands, ETS-gjald innan Evrópu og gætu þurft að greiða alþjóðlegt gjald á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO).
Flugið undir þrýstingi
Ferðaþjónusta og alþjóðatengsl Íslands byggja að stórum hluta á flugsamgöngum, en langar vegalengdir til og frá landinu gera ETS-kerfið hlutfallslega dýrara fyrir íslenskar flugleiðir en aðrar í Evrópu. Sérlausn sem Ísland fékk árið 2026, þar sem hluti losunarheimilda var áfram frítt úthlutaður, rennur út í lok árs 2026. Ef ekki verður gripið til nýrra aðgerða gæti, að mati SA, samkeppnisstaða Keflavíkurflugvallar veikist verulega, farþegafjöldi dregist saman og flug um Ísland færist til annarra flugvalla.
SA hvetur til þess að leitað verði alþjóðlegra lausna, til dæmis með CORSIA-kerfinu, sem taki til allrar alþjóðlegrar flugstarfsemi og mismuni ekki löndum eftir staðsetningu.
Orkufrekur iðnaður og kolefnisbinding
Í umsögninni er einnig varað við því að draga úr fríum losunarheimildum fyrir orkufrekan iðnað, þar sem framleiðsla á áli og kísli felur í sér óhjákvæmilegar efnafræðilegar losanir sem erfitt er að draga úr.
SA leggur áherslu á að kolefnisbinding verði samræmd innan Evrópu og losunarheimildir vegna bindingar verði framseljanlegar milli aðila.
Þungar afleiðingar fyrir efnahagslífið
Samtökin segja að núverandi og fyrirhuguð útfærsla ETS muni auka kostnað fyrir sjóflutninga, flug og orkufrekan iðnað umfram það sem sé sanngjarnt, með neikvæðum áhrifum á samkeppnishæfni, útflutning, innflutning og ferðaþjónustu.
Ef ekkert verður að gert gæti þetta skaðað bæði efnahagslegan stöðugleika og alþjóðatengsl Íslands til framtíðar.