Bandaríkin hafa ákveðið að leggja tolla á gull­stangir sem vega yfir einu kílói og 100 únsu stangir (um 3,1 kíló). Þetta eru al­gengustu stærðirnar á Co­mex, stærsta gullafleiðu­markaði heims, og mynda stóran hluta gullút­flutnings Sviss til Bandaríkjanna.

Ákvörðunin felur í sér að þessar stærðir gull­stanga falla nú undir tolla­flokk sem ber inn­flutnings­tolla, í stað toll­frjálsrar flokkunar sem margir í greininni höfðu gert ráð fyrir.

Toll­flokkunin kemur í kjölfar þess að Bandaríkin hækkuðu al­menna inn­flutnings­tolla á vörur frá Sviss í 39% í síðustu viku en gull er ein helsta út­flutnings­vara Sviss til Bandaríkjanna.

Christoph Wild, for­seti sam­taka sviss­neskra fram­leiðenda eðal­málma, segir að þessi ákvörðun sé „annað áfall“ fyrir gull­við­skipti milli landanna og muni gera það erfiðara fyrir að anna eftir­spurn eftir gulli á bandaríska markaðnum.

Alþjóð­legt gull­flæði fylgir yfir­leitt þríhyrndu mynstri: stórar 400 únsu stangir (um 12,4 kíló) fara milli London og New York, oft í gegnum Sviss, þar sem þær eru endur­bræddar í aðrar stærðir.

London-markaðurinn notar 400 únsu stangir, á stærð við múr­stein, en í New York eru vinsælastar stangir í kílóþyngd eða 100 únsur, sem eru á stærð við snjallsíma.

Þegar ríkis­stjórn Trumps kynnti nýja inn­flutnings­tolla fyrr á árinu voru ákveðnar gullafurðir undanþegnar og margir túlkuðu það þannig að stærri stangir féllu þar undir.

Það varð til þess að gull­kaup­menn fluttu inn met­magn af gulli til Bandaríkjanna áður en tollarnir tóku gildi, sem leiddi til tíma­bundins skorts í London.

Gull­verð hefur hækkað um 27% frá áramótum og fór tíma­bundið í 3.500 Bandaríkja­dali á únsu. Hækkunin skýrist meðal annars af verðbólguótta, áhyggjum af skuldastöðu ríkja og minnkandi hlut­verki Bandaríkja­dals sem alþjóð­legs vara­gjald­miðils.

Sviss flutti gull til Bandaríkjanna að verðmæti 61,5 milljarða dala á tólf mánuðum fram í júní. Með 39% tollum bætast við um 24 milljarðar dala í tolla á sama magn.

Flokkunar­kerfi fyrir mis­munandi gullafurðir hefur skapað óvissu í greininni. Margar sviss­neskar gull­hreinsistöðvar hafa leitað til lög­fræðinga til að fá skýringar á því hvaða vörur geta notið undanþágu. Tvær þeirra hafa tíma­bundið dregið úr eða stöðvað sendingar til Bandaríkjanna á meðan beðið er nánari út­skýringa.

Wild segir að óljós flokkun geti tafið við­skipti og aukið óvissu á markaðnum.