Bandaríska hag­kerfið tók við sér á öðrum árs­fjórðungi er hag­vöxtur mældist um 3,0%, sam­kvæmt fyrstu tölum frá bandaríska við­skiptaráðu­neytinu.

Um er að ræða marktækan bata eftir að hag­kerfið dróst saman um 0,5% á fyrsta árs­fjórðungi, þegar fyrir­tæki flýttu inn­flutningi vegna væntan­legra tolla sem Donald Trump Bandaríkja­for­seti hafði boðað.

Hag­vöxturinn var tölu­vert yfir væntingum markaðsaðila. Hag­fræðingar sem Wall Street Journal hafði rætt við gerðu einungis ráð fyrir 2,3% vexti.

Tölurnar endur­spegla áhrif breytinga í utan­ríkis­við­skiptum og sveiflu­kenndan inn­flutning, sem hefur stýrt hluta af hag­vextinum, frekar en undir­liggjandi eftir­spurn heima fyrir.

Einka­neysla jókst um 1,4% á tíma­bilinu en var dregin niður af lakari fjár­festingum at­vinnulífsins.

Afar lítið atvinnuleysi

Sam­kvæmt WSJ benda undir­liggjandi tölur þó til þess að það dragi heldur úr einka­neyslu og fjár­festingu á næstu misserum.

Árs­fjórðungurinn markaðist af um­deildum tollaáætlunum Trumps en áformin eru lík­leg til að hafa áhrif á þriðja árs­fjórðung einnig. Trump hefur gefið fjölmörgum ríkjum frest til 1. ágúst til þess að gera fríverslunar­samning við Bandaríkin.

Þessi óvissa virðist hafa kælt fjár­festingará­form og haft áhrif á neyt­enda­vitund.

Þrátt fyrir að at­vinnu­leysi hafi verið lágt (4,1% í júní) og auknar ráðningar (að meðaltali 150.000 ný störf á mánuði á 2. árs­fjórðungi), þá bendir neyslu­hegðun til varkárni.

Neytendur draga saman seglin

Procter & Gamble, sem oft telst vísir um þróun í neyslu­hegðun bandarískra heimila, greindi frá því í ný­legu upp­gjöri sínu að neyt­endur væru að nýta birgðir sínar betur, fresta kaupum og heimsækja verslanir sjaldnar.

„Við sjáum greini­leg merki um að neytandinn sé undir ein­hverju álagi,“ sagði Andre Schul­ten, fjár­mála­stjóri P&G, sem fram­leiðir m.a. Tide þvotta­efni og Pan­tene sjampó.

Þrátt fyrir að tolla­stefna og inn­flytj­enda­mál séu áberandi í opin­berri stefnu Trumps hafa áhrif þeirra á hag­vöxt og verðbólgu ekki verið af­gerandi hingað til.

Verðbólga jókst lítil­lega í júní, sam­kvæmt tölum Vinnumála­stofnunar, en ekki í mæli sem vekur stórar áhyggjur.

Jamie Dimon, for­stjóri JP­Morgan Chase, orðaði stöðuna þannig á dögunum:

„Við höfum í raun verið í mjúkri lendingu um nokkurt skeið – og hingað til hefur hag­kerfið sýnt seiglu. Vonandi heldur það áfram.“