Euro Economics Commercial Properties ApS., félag danska milljarðamæringsins Bo Bendtsen, tapaði 235 milljónum danskra króna, eða um 4,5 milljörðum íslenskra króna, í fyrra.
Tap Bendtsen, sem byggði auðæfi sín á fjárfestingu í Just Eat, kemur að mestu vegna fjárfestinga hans í lífgasfyrirtækinu Biocirc, sem hefur verið í kastljósi danskra fjölmiðla vegna mikilla innanbúðarátaka.
Samkvæmt nýbirtum ársreikningi er tap félagsins um þrefalt meira en árið á undan. Eigið fé félagsins hefur þurrkast út og er neikvætt um 46 milljónir danskra króna, samanborið við jákvætt eigið fé upp á 189 milljónir danskra árið áður.
Í skýrslu stjórnenda kemur fram að gert sé ráð fyrir að endurreisa eigið fé með framtíðarhagnaði og auknu innstreymi fjármagns.
Bendtsen er stór hluthafi í Biocirc, sem hefur lýst metnaðarfullum áformum um að verða stærsta lífgasfyrirtæki heims.
Á fyrri hluta árs 2025 brutust út átök innan stjórnar Biocirc þegar meirihluti hennar, þar á meðal danski landbúnaðarrisinn DLG, reyndi að reka forstjórann Bertel Maigaard vegna óreiðu í stjórnun fyrirtækisins.
Bendtsen studdi hins vegar forstjórann og neitaði að samþykkja brottreksturinn.
Með stuðningi hans tapaði DLG völdum í stjórninni og Maigaard hélt stöðu sinni. DLG svaraði með því að afskrifa eignarhlut sinn í Biocirc um tugi milljóna danskra króna í ársreikningi sínum fyrir 2024.
Í kjölfarið sagði Niels Dengsø, stjórnarformaður DLG, af sér með þeim rökum að átökin í kringum Biocirc hefðu haft áhrif á heilsu hans og hann þyrfti að hlífa sér.
Fjárfestingar Bo Bendtsens í grænum verkefnum hafa reynst dýrkeyptar en samkvæmt Finans eru nú spurningamerki um áframhaldandi burði hans til að fjármagna metnaðarfull áform í Biocirc.
Engin viðbrögð hafa fengist frá bræðrunum Bendtsen við umfjöllun danska fjölmiðilsins Finans, en ljóst er að þrýstingur eykst á afkomu og rekstrargrundvöll viðkvæmra lífgasverkefna.