Ástralski bankinn ANZ hefur beðist af­sökunar og boðið starfsmönnum sál­fræðiað­stoð eftir að meira en 100 milli­stjórn­endum barst tölvupóstur fyrir mistökum, þar sem þeim var skipað að skila fartölvum sínum vegna upp­sagnar.

Sjálf­virku póstarnir fóru út á skömmu áður en bankinn hélt fjar­fund en þar neyddist bankinn til að staðfesta brott­rekstur viðkomandi starfs­manna, samkvæmt Financial Times.

Í innan­hús­spósti skrifaði Bruce Rush, starfandi fram­kvæmda­stjóri við­skipta ANZ, að hann „harmi þau óþægindi og van­líðan sem þetta hefur valdið“ og að bankinn væri skuld­bundinn til að koma fram við alla „af virðingu“ í uppsagnarferli.

Sagt upp viku of snemma

ANZ hafði upp­haf­lega ætlað að til­kynna upp­sagnir í næstu viku, en mis­heppnað sjálf­virkt ferli varð til þess að starfs­fólk frétti af starfs­lokum með röngum hætti og á röngum tíma.

Bankinn segir að sál­fræðiað­stoð og önnur úrræði standi þeim sem hlut eiga að máli til boða.

Tals­maður ANZ sagði að bankinn hefði „beðist skil­yrðis­lausrar af­sökunar“ við þá sem málið varðar.

Atvikið gerist samhliða því að Nuno Matos, fyrrverandi háttsettur yfirmaður hjá HSBC bak sem tók við sem forstjóri í maí, undirbýr stefnubreytingu sem gert er ráð fyrir að verði kynnt í október.

Hlutabréf ANZ hafa hækkað um 18 prósent það sem af er ári. Bankinn hefur glímt við rekstrar- og orðsporsvandamál á undanförnum árum. Bankinn hefur meðal annars sætt rannsókn á meintum verðtilbúnaði á skuldabréfamarkaði og vegna vinnubragða hjá verðbréfamiðlurum bankans.