Nafni fjárfestingarsjóðsins Tækifæri, sem á 44% hlut í Jarðböðunum í Mývatnssveit og 35% hlut í Sjóböðunum á Húsavík, hefur verið breytt í Norðurböð í kjölfar þess að fjárfestahópur sem telur Höld, Kjálkanes og Íslenskar heilsulindir, dótturfélag Bláa Lónsins, eignaðist 67% hlut í sjóðnum í haust.

Stjórn Norðurbaða verður skipuð af Steingrími Birgissyni, forstjóra Hölds, Björgólfi Jóhannssyni, fyrrverandi forstjóra Icelandair og hluthafa í Kjálkanesi, Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, Inga Jóhanni Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Kjálkaness, og Brynjari Þór Hreinssyni, forstöðumanni eignastýringar hjá Stapa lífeyrissjóði.

Steingrímur mun gegna stjórnarformennsku og Kolbeinn Friðriksson, fjármálastjóri Hölds, verður framkvæmdastjóri Norðurbaða.

Framangreindur fjárfestahópur keypti 67% hlut í Tækifæri af Kea fjárfestingafélagi sem átti fyrir 73% hlut. Þegar kaupin voru tilkynnt sagði Steingrímur að tilgangi og starfsemi Tækifæris, sem heitir nú Norðurböð, yrði breytt á þann hátt að það verði eignarhaldsfélag um eignarhluti í Jarð- og Sjóböðunum.

Sjá einnig: Kaupa 67% hlut KEA í Tækifæri

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri Kea, sagði í tilkynningu á vef fjárfestingafélagsins í haust að það hefði fengið boð í eignarhlutinn í Tækifæri „sem við töldum okkur ekki geta hafnað“.