Búist er við stórum ákvörðunum á fundum Seðlabanka Bandaríkjanna í dag og á morgun. Verðbólga vestanhafs mældist 6,8% í nóvember og hefur ekki verið meiri frá árinu 1982. Auk þess hefur atvinnuleysi lækkað hratt og mældist 4,2% í nóvember.
Sérfræðingar telja líklegt að bankinn hafi gert allt sem í valdi hans stendur til að hvetja áfram atvinnuþátttöku og draga úr atvinnuleysi. Fleiri en áður kjósi að vinna lítið eða ekkert og varast skuli að bera saman atvinnuleysistölur í dag við tölurnar fyrir upphaf faraldursins. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal
Talið er að Seðlabankinn ákveði á fundunum að draga hraðar úr skuldabréfakaupum og hækki vexti fyrr en ella. „Tilfinningin er sú að stórar breytingar verða kynntar," sagði William English, fyrrum hagfræðingur Seðlabankans og núverandi prófessor hjá Yale, í samtali við Wall Street Journal.
James Gorman, forstjóri fjárfestingarbankans Morgan Stanley, sagði í samtali við fréttastofu CNBC að bankinn ætti að hækka vexti núna til að hafa svigrúm til að lækka þá aftur í framtíðinni þegar hægir á gangi hagkerfisins.