Framkvæmdastjórn Controlant hefur tekið breytingum en Martin Thaysen hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. Þá Vallý Helgadóttir tekið við sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs en hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra þjónustusviðs síðustu fjögur árin.

Martin Thaysen, nýr framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Controlant, starfaði hjá Maersk og CEVA Logistics í 20 ár og hefur á starfsferli sínum gegnt forystuhlutverkum í sölu- og markaðsmálum, stefnumótun og mannauðsmálum hjá alþjóðlegum fyrirtækjum í Danmörku, Kína, Tælandi og Bretlandi.

Fram kemur að við breytingarnar færist upplýsinga- og verkefnastjórnun undir gæðasvið til viðbótar við ábyrgð á gæða- og upplýsingaöryggismálum félagsins. Anna Karlsdóttir hefur stýrt gæðasviðinu undanfarin sex ár.

Auk þeirra sitja í framkvæmdastjórninni þau Elín María Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, Erlingur Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri þróunar- og nýsköpunarsviðs og Guðmundur Árnason fjármálastjóri.

Controlant þróar vöktunarlausnir sem fylgjast með hitastigi viðkvæmra vara í flutningi í rauntíma sem kemur  í veg fyrir sóun. Lausnir Controlant hafa gegnt lykilhlutverki í dreifingu Covid-19 bóluefna á alþjóðavísu.

Sjá einnig: Hagnaður og stórhuga vaxtaráform

Á síðasta ári bættust 230 nýir starfsmenn í teymi Controlant sem nú telur 360 starfsmenn, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Gísli Herjólfsson, stofnandi og forstjóri Controlant

„Okkar framtíðarsýn er að útrýma sóun í aðfangakeðjunni með tæknilausnum Controlant.  Til að ná þessu markmiði erum við að styrkja okkar innviði ásamt því að stækka framkvæmdastjórateymið til að styðja við aukinn vöxt fyrirtækisins. Eftir þessar breytingar erum við nú með fulltrúa frá öllum sviðum Controlant í framkvæmdastjórn sem mun skerpa á áherslum okkar og stefnu, stytta boðleiðir og gera okkur skilvirkari í ákvarðanatöku.”

Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður Controlant

„Með sterka og fjölbreytta framkvæmdarstjórn og skýra framtíðarsýn erum við reiðubúin fyrir  næsta áfanga á okkar vegferð. Stjórn Controlant hlakkar til að vinna með öflugu teymi að áframhaldandi vexti og þróun tæknilausna sem munu umbylta aðfangakeðjunni.”