Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures þar sem tveir nýir framkvæmdastjórar hafa tekið sæti.
Gunnar Hafsteinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs. Hann hefur víðtæka reynslu úr upplýsingatækni og stafrænni vöruþróun en hann starfaði áður hjá Noona Iceland, Símanum, Five Degrees og Landsbankanum.
Gunnar er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá sama skóla.
Lina Zygele, sem gegnir starfi markaðsstjóra Arctic Adventures, tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Hún hóf störf hjá Arctic Adventures árið 2019 sem sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu. Lina er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og M.Sc.-gráðu í markaðsfræði og samskiptum frá Háskólanum í Vilnius í Litháen.
Ásgeir Baldurs forstjóri Arctic Adventures segir breytingarnar lið í áframhaldandi uppbyggingu félagsins.
„Ég er afar ánægður með að fá þetta öfluga fólk inn í framkvæmdastjórn félagsins þar sem þau munu spila stórt hlutverk. Undanfarin misseri höfum við byggt upp og eflt enn frekar innviði Arctic Adventures, fjárfest í vöruþróun og aukið vöruframboð okkar. Fjárfesting í aukinni tæknigetu og stafrænni markaðssetningu er lykillinn að áframhaldandi vexti Arctic Adventures sem leiðandi ferðaþjónustufyrirtækis á Íslandi.”