Bandaríski fjár­festirinn Ray Dalio, stofnandi Brid­gewa­ter Associa­tes, varar við því í viðtali við Financial Times að Bandaríkin séu að halla sér að stjórnar­háttum sem minna á fjórða og fimmta ára­tug síðustu aldar. Hann segir vaxandi mis­skiptingu í auði, djúpa gjá í gildum og hrun trausts ýta undir öf­ga­kenndari stefnu og meiri ríkis­af­skipti af at­vinnulífinu.

Dalio nefnir ákvörðun stjórn­valda um að fá 10% eignar­hlut í Intel og sér­staka út­flutnings­tolla á Nvidia og AMD sem dæmi um aukna íhlutun ríkisins.

Hann segist jafn­framt hafa áhyggjur af sjálf­stæði Seðla­banka Bandaríkjanna eftir pólitísk inn­grip í stjórn bankans og þrýsting um hraðar, djúpar vaxtalækkanir.

Veikari staða Seðla­bankans grefur undan trausti á varnar­getu bankans til að halda verð­gildi dollarans og gerir skulda­bréf í dölum síður aðlaðandi, að sögn Dalio.

Hann bætir við að er­lendir fjár­festar hafi þegar fært sig úr bandarískum ríkis­bréfum yfir í gull.

Dalio varar einnig við vaxandi skulda­vanda þar sem stjórn­völd séu að verja um 7.000 milljörðum dollara á ári en inn­heimti aðeins um 5.000 milljarða, sem kalli á nýja skulda­bréfaút­gáfu á sama tíma og eftir­spurn veikist.

Seðla­bankinn stendur að mati Dalio frammi fyrir tveimur kostum þegar markaðurinn fer að efast um trúverðug­leika ríkis­fjár­mála: leyfa vöxtum að hækka með áhættu á skulda­kreppu eða prenta peninga og kaupa skuldirnar sem aðrir vilja ekki, sem hvort tveggja myndi veikja dollarann.

Að hans mati gæti „skulda­kreppa af völdum of mikillar skuld­setningar“ blasað við innan um það bil þriggja ára.

Að lokum segir Dalio að margir fjár­festar þori ekki að gagn­rýna for­setann af ótta við viðbrögð, en hann sjálfur sé ein­fald­lega að lýsa or­saka­hringnum sem sé að drífa fram­vindu mála.

„Lýðræðið veikist þegar gjár í auði og gildum verða óbrúan­legar; þá eykst krafa um harðari for­ystu sem lofar að ná tökum á kerfinu,“ segir hann.