Heimsmarkaðsverð á hveiti hefur hækkað ört að undanförnu vegna áhyggna af framboðstruflunum vegna innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Það hefur hækkað um 60% síðastliðinn mánuð og um 30% síðastliðna viku og hefur ekki risið jafn hátt í meira en áratug, eða frá árinu 2008.

Þess má geta að Rússland er stærsta útflutningsland hveitis í heiminum og Úkraína meðal fjögurra stærstu útflutningslanda hveitis. Rússland flytur út 17% af heildarútflutningi hveitis á alþjóðlegum markaði. Úkraína flytur síðan út um 12% af heildarútflutningi, samkvæmt greiningaraðilum hjá Bank of America. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Gro Intelligence sáu Úkraína og Rússland fyrir 14% af hveitiframleiðslu á heimsmarkaði.

Ætla ekki að hækka verð

Óttast er að mikil hækkun á hrávöruverði leiði til hækkunar vöruverðs og auki þannig á verðbólguþrýsting. Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's á Íslandi segir, í samtali við Viðskiptablaðið, að það verði ekki farið í verðhækkanir hjá Domino's á næstunni. „Það hefur verið ákveðin stefna hjá okkur að vera ekki mikið í verðhækkunum og halda verðinu niðri eins og við getum."

Hann segir lítið vit í því að hækka verð eins og stendur. „Þessi þróun á hveitiverði á heimsmarkaði hefur átt sér stað á skömmum tíma og það á eftir að koma í ljós hvað þetta heldur lengi út. Þótt það sé erfitt að sjá það fyrir núna, þá vonast maður eftir því að þetta gangi niður og að ástandið komist í eðlilegra horf."

Verð á pappa hækkað talsvert

„Þetta snýst svolítið núna um að bíða og sjá. Við höfum ekki enn fengið til okkar frekari hækkanir á hveiti og þetta hefur allt gerst mjög hratt. Að einhverju leyti erum við betur sett en margir markaðir á meginlandi Evrópu. Hveitibirginn okkar vinnur bæði með evrópskt og bandarískt hveiti og ég geri ráð fyrir að hækkanirnar hafi ekki verið eins miklar vegna þessa," en Domino's kaupir hveiti frá Kornax.

Magnús segist ekki hafa séð fyrir hækkanirnar sem hafa orðið á undanförnum mánuðum. „Pappinn hefur hækkað talsvert að undanförnu, eins og hveitið. Það hefur verið ómögulegt að semja um verð á pappa nema í nokkra mánuði í senn. Annað hvort tekurðu verðinu sem fæst eða sleppur því að kaupa.“

Hækkuðu verð undir lok síðasta árs

Domino's hækkaði verð lítillega undir lok síðasta árs. Þá hækkaði verð að meðaltali um þrjú prósent, en minni hækkanir voru á sóttum pizzum samanborið við heimsendar pizzur.

Magnús segir að gripið hafi verið til verðbreytinga á þeim tíma meðal annars vegna hækkana á hrávörumarkaði. „Erlendu innkaupin hækkuðu talsvert, pappi hækkaði mjög mikið og hveiti líka." Hann bætir við að kjarasamningsbundnar launahækkanir og hagvaxtaraukinn hafi auk þess spilað inn í verðhækkanirnar á sínum tíma.