Í fjárhagsspá OR fyrir árin 2024–2028 var Carbfix sett á oddinn sem eitt af lykilvaxtarverkefnum samstæðunnar. Þar var gert ráð fyrir allt að 68 milljarða króna hlutafjáraukningu til að byggja upp umfangsmikla starfsemi, bæði innanlands og erlendis, meðal annars með stórum alþjóðlegum samningum og innviðauppbyggingu.

Samkvæmt spánni átti Carbfix að auka tekjur OR verulega á spátímabilinu og skila auknum rekstrarhagnaði (EBITDA) og bættu eigin fé um tugi milljarða króna

„Ávöxtun eigin fjár hækkar mikið undir lok spátímabilsins en á þeim tíma er gert ráð fyrir að hagnaður af rekstri Carbfix sé að aukast mikið á milli ára,“ sagði í fjárhagsspánni 2024– 2028

Í nýrri fjárhagsspá 2025– 2029 er tónninn annar. Carbfix er enn nefnt sem mikilvægur hluti af langtímastefnu OR en tölulegar forsendur um hlutafjáraukningu, áætlaðan tekjuvöxt eða beinan fjárhagslegan ávinning fyrir OR eru ekki lagðar fram.

Í ársreikningi OR er bent á að fjárfestingar og lánveitingar til Carbfix séu áhættusamar þar sem félagið sé á vaxtarog þróunarstigi án sjálf­bærs tekjuflæðis. Tekið er fram að stefnt sé að því að fá meðfjárfesta að verkefnum til að minnka áhættu, en að árangur ráðist af því hvort Carbfix nái að ljúka samningum og framkvæmdir gangi samkvæmt áætlun.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í vikunni lauk Car­b­fix hf. rekstrarárinu 2024 með skuldir upp á 43,9 milljónir evra, um 6,3 milljarða króna á gengi dagsins.

Um er að ræða 79% aukningu á milli ára en félagið skuldaði 24,5 milljónir evra í árs­lok 2023. Langtíma­skuldir til Orku­veitunnar námu 30,6 milljónum evra í árs­lok 2024, saman­borið við 14,6 milljóna skammtíma­skuld við OR árið áður.

Orku­veitan hefur því lagt félaginu veru­legt fjár­magn til rekstrar og breytt skammtíma­skuldinni í langtímalán.

Car­b­fix tapaði 8,1 milljón evra sem sam­svarar tæpum 1,2 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins. Upp­safnað tap félagsins síðustu tvö ár er 11,3 milljónir evra.

Heildar­eignir félagsins voru bók­færðar á 40,5 milljónir evra í árs­lok 2024 sem er aukning úr 29,2 milljónum evra árið 2023.

Mestur hluti eigna Car­b­fix er bundinn í varan­lega rekstrar­fjár­muni, sem námu 26,2 milljónum evra í lok árs, auk óefnis­legra eigna að fjár­hæð 3,6 milljónir evra.

Vegna þess að stærstur hluti skulda Carbfix er til OR, sem er í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar, felur skuldsetningin í sér beina fjárhagslega áhættu fyrir eigandann og óbeint fyrir borgarbúa.

Ef tekjuflæði frá nýjum verkefnum verður hægara en áætlað er, gæti þurft að leita frekari fjármögnunar eða endurskipulagningar lána. Horfur félagsins byggja á því að stór verkefni skili af sér rekstrartekjum frá og með 2025.

Dótturfélagið Coda Terminal hf. undirbýr nú í Ölfusi uppbyggingu umfangsmikillar móttöku- og geymslustöðvar fyrir koldíoxíð, þar sem allt að þrjár milljónir tonna CO₂ verða bundin árlega í fjórum áföngum.  Samkvæmt Carbfix krefst verkefnið 75 milljarða króna fjárfestingu. Með Coda Terminal stefnir Carbfix að því að færa Carbfix-tæknina á alþjóðavettvang.

Þar mun fyrirtækið taka á móti CO₂ frá erlendum iðnaði og innlendum losunaraðilum. Ólafur Elínarson, samskiptastjóri Carbfix, sagði við Morgunblaðið í síðasta mánuði að einkafjárfestar myndu bera áhættuna af stærstu fjárfestingarverkefnum Carbfix, en ekki skattgreiðendur.

Miðað við fjárhagsstöðu félagsins er því ljóst að félagið sé á tímamótum en skuldabyrðin krefst árangurs í nýjum verkefnum og tekjuflæði.

Í ársreikningi og fjárhagsspá OR er tekið fram að fjárfestingar og lánveitingar til Carbfix séu áhættusamar þar sem félagið sé enn á vaxtarog þróunarstigi án sjálfbærs tekjuflæðis.

Árangur ræðst af því að félagið ljúki samningum og að framkvæmdir við stór verkefni gangi samkvæmt áætlun. T

afir á leyfisveitingum eða lengri framkvæmdatími gætu aukið rekstrarkostnað án þess að tekjur kæmu á móti, sem myndi auka þörf fyrir frekara lánsfé og draga úr arðsemi verkefnanna. Slíkt gæti haft fjárhagsleg áhrif bæði á Carbfix og móðurfélagið, Orkuveitu Reykjavíkur, og þar með óbeint á eigendur þess.