Runólfur Þór Sanders, nýr fjármálastjóri S4S, segir að fyrstu vikur sínar í starfi hafi verið skemmtilegar. „Hjá S4S vinnur frábært fólk sem hefur tekið mjög vel á móti mér. Starfsemi félagsins spannar breitt svið en ég þekki félagið vel eftir að hafa starfað sem ráðgjafi þess er framtakssjóðurinn Horn IV kom inn sem nýr hluthafi. Ég var því þegar búinn að kynnast stjórnendum félagsins vel og þeir mér."

Hann kveðst spenntur fyrir þeirri vegferð sem félagið er á og stefnu þess til framtíðar. „Félagið hefur gefið það út að það stefnir að skráningu á hlutabréfamarkað innan fárra ára. Það verður gaman að fá að taka þátt í því stóra verkefni að undirbúa félagið fyrir skráningu. Auk þess mun ég hjálpa til við að gera félaginu kleift að stækka enn frekar, bæði með innri og ytri vexti. Þetta eru verkefni sem ég þekki vel eftir störf mín hjá Deloitte."

Runólfur kveðst hafa átt tólf góð ár hjá Deloitte og ber tíma sínum hjá félaginu mjög góða sögu. „Hjá Deloitte kom ég að ýmsum verkefnum fyrir marga mismunandi viðskiptavini, en hjá S4S fæ ég að vinna að mörgum verkefnum fyrir sama félagið. Mér þykir þessi tilbreyting, að geta einblínt á mörg verkefni fyrir sama félagið, einkar spennandi."

Í frítíma sínum eyðir Runólfur flestum stundum með konu sinni, Lovísu Önnu Finnbjörnsdóttur, og tveggja ára dóttur þeirra. „Allir dagar með þeim mæðgum eru skemmtilegir og við reynum að nýta helgarnar vel til þess að bralla ýmislegt saman. Okkur finnst líka gaman að bjóða fólki heim eða fara í matarboð en sjálfur hef ég gaman af því að elda góðan mat. Auk þess finnst okkur gaman að ferðast, hvort sem það er innanlands eða erlendis." Næsta ferð á döfinni hjá fjölskyldunni er um páskana er haldið verður til Flórída með stórfjölskyldunni. Mikil eftirvænting ríkir fyrir ferðalaginu að sögn Runólfs.

Runólfur kveðst gera sitt besta til að stunda golf á sumrin, þó með misjöfnum árangri. „Í mínu fyrra starfi var mikið að gera yfir sumartímann. Ég hef því aðallega verið í því að styrkja golfklúbbana og lítið náð að spila undanfarin ár. Ég borga sem sagt árgjöldin en mæti afar sjaldan. Stefnan er þó að nýta aðildina betur í sumar og hita vel upp fyrir sumarið í Flórída," segir Runólfur kíminn. Hann segir fastan lið á hverju sumri að fara ásamt góðum vinum í stangveiði. Þar að auki vonast Runólfur til að dusta rykið af skíðunum áður en langt um líður.