Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans telur brýnt að efla umgjörð um greiðslumiðlunarkerfið hér á landi til að bregðast við aukinni áhættu vegna netárása. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar til Alþingis.

Rekstrarstöðvanir hafi átt sér stað í fyrra hjá kortafyrirtækjum í kjölfar stórra netárása. Þá telur nefndin, sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri leiðir, brýnt að innleiða óháða innlenda smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega kortainnviði sem meðal annars gæti þjónað sem varaleið verði rekstrartruflanir.