Spænski tískurisinn Inditex, sem á m.a. fatamerkið Zara, hefur náð samkomulagi um sölu á starfsemi sinni í Rússlandi til Daher Group, fyrirtækis frá frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Í tilkynningu segir Inditex að viðskiptin tryggi atvinnu fyrir stóran hluta starfsmanna þess í Rússlandi þar sem samkomulagið inniheldur leigusamninga utan um flestar þær verslanir sem félagið hélt úti í Rússlandi. Leigurýmin munu hýsa verslanir á vegum Daher.
Inditex útilokar þó ekki að snúa aftur til Rússlands í framtíðinni og tekur fram að ákvæði í samningnum geri félögunum kleift að hefja samstarf í gegnum sérleyfissamninga.
Inditex lokaði fleira en 500 verslunum í Rússlandi í mars í kjölfar innrásar Rússahers í Úkraínu í lok febrúar síðastliðnum.
Inditex gjaldfærði 216 milljóna evra varúðarfærslu, eða sem nemur 31 milljarði króna, á fyrri hluta ársins vegna áhrifa stríðsins á starfsemi samstæðunnar í Úkraínu og Rússlandi. Félagið tekur fram að þessi færsla nái utan um stóran hluta af tapinu sem það varð fyrir sökum þess að stöðva þurfti starfsemina í Rússlandi.