TBJ ehf., eignarhaldsfélag Hamborgarabúllunnar, tapaði tæplega 350 milljónum króna á árinu 2023, samkvæmt ársreikningi þess árs sem félagið birti í febrúar síðastliðnum.
Í ársreikningum segir stjórn félagsins að reksturinn árið 2024 hafi verið mun betri og samskipti stjórnar við lánardrottna hafi verið mjög góð.
Stjórn og framkvæmdastjóri telja félagið rekstrarhæft, þrátt fyrir verulegt neikvætt eigið fé.
Samkvæmt stjórninni er bókfært virði eignarhluta í dótturfélagi talsvert undir áætluðu markaðsverði félagsins. Þar vegur tap í erlendum dótturfélögum og niðurfærsla hlutafjár þungt.
Eigið fé neikvætt um 693 milljónir
Samkvæmt ársreikningum var félagið með neikvætt eigið fé upp á 693 milljónir króna í lok árs 2023 og skuldaði 1,24 milljarða króna. Af þeim skuldum eru 426 milljónir við tengd félög og 756 milljóna skuldabréfalán. Handbært fé í lok árs var 193 þúsund krónur.
„Félagið hefur gengist undir ýmsar kvaðir í lánasamningum við lánveitendur. Í sumum tilvikum stenst félagið ekki þessar kvaðir en lánveitendur við gerð ársreikningsins hafa ekki gjaldfellt lán að svo stöddu,” segir í ársreikningi
Í ársreikningnum kemur fram að virði hlutabréfa í dótturfélögum hafi farið úr 683 milljónum króna í upphafi árs niður í 413 milljónir í árslok.
Þessi lækkun skýrist m.a. af afskrift viðskiptavildar uppá 58,3 milljónir, tapi af rekstri dótturfélaga upp á 207 milljónir og neikvæðum gengismun upp á 4,8 milljónir.
Aðeins eitt félag, HBT ehf., sem rekur Hamborgarabúlluna á Íslandi, skilaði hagnaði sem nam 64,7 milljónum.
Virði Búllunar í London 0 krónur
Þrátt fyrir þennan hagnað vegur afkoma HBT lítið á móti því mikla tapi sem TBJ ehf. varð fyrir í erlendu starfseminni.
Sérstök niðurfærsla var gerð m.a. á eignarhlut í Tommi’s Burger Joint í Bretlandi og öðrum evrópskum félögum.
Tap dótturfélaga umfram hlutdeild er aðeins gjaldfært hafi félagið gengist í ábyrgð eða stofnað til skuldbindinga fyrir þeirra hönd.“
Þar sem TBJ hefur þurft að veita fjárhagslegan stuðning (t.d. með því að breyta lánum í eigið fé) hefur félagið þurft að bókfæra eigið fé í Bretlandi og Þýskalandi — án þess að fá tekjur í staðinn.
Í ársreikningi segir að hlutdeildin í Tommi’s Burger Joint (UK) hafi verið afskrifuð að fullu vegna rekstrartaps og mögulegrar óendurgreiðanlegrar fjárfestingar.
Hlutdeild í TBJDE GmbH (Þýskalandi) er bókuð áfram á 54,8 milljónir, þrátt fyrir talsverðan rekstrarhalla.
Í reikningi segir félagið að áhrif COVID-19 ár dótturfélög þess hafi verið mikill og af þeim sökum þurfti móðurfélagið að veita þeim fjárhagslegan stuðning.
„Á þetta sérstaklega við erlend dótturfélög þar sem áhrif Covid 19 hafa verið meiri en á Íslandi. Stjórnendur félagsins hafa metið erlend dótturfélög og fært lán, sem áður voru kröfur, sem eigið fé í þessum félögum. Mat þeirra byggir á áætluðum rekstri við eðlilegt árferði og með því að breyta kröfum móðurfélags í eigið fé styrkir það rekstur dótturfélaganna. Bókfært eigið fé erlendra dótturfélaga í Bretlandi og Þýskalandi er þannig fengið með því að breyta skuldum í eigið fé.”
Í upphafi og lok ársins voru hluthafar í félaginu Kristín Gunnarsdóttir sem átti 30% hlutafjár, IKT ehf. sem átti 22%, Tómas A. Tómasson sem átti 23%, IK Holdings ehf. sem átti 20% og Tómas Aki Tómasson sem átti 5% hlutafjár.