Skipta­lokum BS Turn ehf., sem rak veislu­aðstöðu í tveimur efstu hæðum Turnsins í Smára­torgi, er lokið en ekkert fékkst upp í lýstar kröfur kröfu­hafa félagsins.

Héraðs­dómur Reykja­ness úr­skurðaði félagið gjaldþrota í október 2013 en skipta­lokum lauk ekki fyrr en í síðustu viku.

Kröfu­hafar lýstu 658 milljónum í búið án þess þó að fá neitt upp í þær kröfur.

Félagið, sem rak há­degis­verðar­stað ásamt funda-, ráð­stefnu- og veislu­sölum á 19. hæð turnsins og veislu­sal á 20. hæð, skilaði síðast árs­reikningi 2011.

Það ár hagnaðist félagið um 36,7 milljónir króna en eigið fé var neikvætt um 18,7 milljónir.

Sam­kvæmt Credit Info var Þor­steinn Hjalte­sted stærsti hlut­hafi félagsins með 24% en þar á eftir kom Pálmi Sigurðs­son með 16%. Eggert Árni Gísla­son átti 12% hlut í félaginu.

Aðrir hlut­hafar áttu 48% hlut en sam­kvæmt Credit Info var Sverrir Berg­mann Pálma­son skráður raun­veru­legur eig­andi.