Skiptalokum BS Turn ehf., sem rak veisluaðstöðu í tveimur efstu hæðum Turnsins í Smáratorgi, er lokið en ekkert fékkst upp í lýstar kröfur kröfuhafa félagsins.
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði félagið gjaldþrota í október 2013 en skiptalokum lauk ekki fyrr en í síðustu viku.
Kröfuhafar lýstu 658 milljónum í búið án þess þó að fá neitt upp í þær kröfur.
Félagið, sem rak hádegisverðarstað ásamt funda-, ráðstefnu- og veislusölum á 19. hæð turnsins og veislusal á 20. hæð, skilaði síðast ársreikningi 2011.
Það ár hagnaðist félagið um 36,7 milljónir króna en eigið fé var neikvætt um 18,7 milljónir.
Samkvæmt Credit Info var Þorsteinn Hjaltested stærsti hluthafi félagsins með 24% en þar á eftir kom Pálmi Sigurðsson með 16%. Eggert Árni Gíslason átti 12% hlut í félaginu.
Aðrir hluthafar áttu 48% hlut en samkvæmt Credit Info var Sverrir Bergmann Pálmason skráður raunverulegur eigandi.