Eldum rétt hagnaðist um 222 milljónir króna á síðasta ári en árið áður var hagnaður þó 67 milljónum hærri. Rekstrartekjur námu rétt rúmlega tveimur milljörðum í fyrra en voru rétt tæplega tveir milljarðar árið á undan. Framlegð nam 998 milljónum og jókst um 48 milljónir á milli ára. Eignir námu 539 milljónum í lok síðasta árs og eigið fé 351 milljón.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi segir að góð eftirspurn hafi verið eftir matarpökkum fyrirtækisins á síðasta ári. Hápunktur ársins hafi verið tíu ára afmælishátíð fyrirtækisins sem haldin var í byrjun rekstrarárs. Viðskiptavinir hafi þá átt möguleika á risastórum ferðavinning sem laumað hafi verið af handahófi í nokkra matarpakka á meðan afmælishátíðin stóð yfir. Segja megi að viðskiptavinir hafi tekið við sér og eftirspurn farið langt fram úr væntingum.
Allt hlutfé Eldum rétt er í eigu Haga en stjórn félagsins leggur til að 250 milljónir verði greiddar í arð til hlutahafa á þessu ári. Rúm þrjú ár eru síðan Hagar festu kaup á Eldum rétt.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.