Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lögmaður hafi mætt í hjálparmiðstöð fyrir ferðamenn, sem bjargað var ofan af Langjökli í upphafi árs, til að bjóða fram þjónustu sína við að sækja bætur úr hendi ferða þjónustufyrirtækisins.
Það var þann 7. janúar á þessu ári að tæplega fjörutíu manna hópur ferðamanna lagði á Langjökul með ferðaþjónustufyrirtækinu Mountaineers of Iceland. Veðurviðvörun var í gildi fyrir landið allt þann dag sem farið var upp á jökulinn en með í för voru tíu leiðsögumenn frá fyrirtækinu. Hópurinn komst ekki niður af sjálfsdáðum sökum hríðarbylsins og þurfti að kalla út hundrað björgunarsveitarmenn til að koma fólkinu til byggða á ný. Þegar niður var komið fékk fólkið afdrep í fjöldahjálparmiðstöð við Gullfoss.
Líkt og fjallað hefur verið um er þetta ekki í fyrsta sinn sem eitthvað fer úrskeiðis í ferð á vegum fyrirtækisins en fyrir þremur árum urðu áströlsk hjón viðskila við hóp sinn í sambærilegri ferð. Voru hjónunum að endingu dæmdar tæpar 700 þúsund krónur í skaða- og miskabætur vegna þessa. Svo virðist sem ekki hafi fennt yfir þann dóm því heimildir blaðsins herma að lögmaður hafi mætt í fjöldahjálparmiðstöðina til að bjóða hópnum aðstoð við að sækja bætur.
Lögmannsins getið í skýrslutökum
„Ég get staðfest að ég hef heyrt þessa sögu. Þá kom einnig fram í skýrslutöku hjá einstaklingi úr hópnum að lögmaður hafi elt hópinn til Reykjavíkur og boðið aðstoð við að sækja bætur,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, við Viðskiptablaðið. Oddur kann ekki deili á umræddum lögmanni og segir að honum sé ekki kunnugt um að sambærileg atvik hafi átt sér stað hér á landi áður.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .