Líftækni­fyrir­tækið Ocu­lis Holding AG hefur tryggt sér aukið fjár­magn með breytingum á láns­samningi við sjóði í stýringu hjá bandaríska fjár­festingar­risanum BlackRock.

Með breytingunum hækkar mögu­leg heildar­láns­heimild félagsins úr 75 milljónum í allt að 100 milljónir sviss­neskra franka (CHF), jafn­virði um 15,3 milljarða ís­lenskra króna.

Í til­kynningu félagsins til kaup­hallarinnar í morgun kemur fram að breytti láns­samningurinn feli í sér sveigjan­lega upp­byggingu þar sem hægt er að nýta fjár­magnið í þremur 25 milljóna franka hlutum, með mögu­leika á viðbótar 25 milljóna franka láni.

Engin upp­hæð var dregin á lánið við undir­ritun en að­gengi að fjár­mununum mun styðja félagið á mikilvægu stigi klínískrar þróunar.

„Við fögnum því að hafa hækkað láns­heimild okkar sam­kvæmt eldri láns­samningi við sjóði í stýringu BlackRock, en breytingarnar hafa í för með sér aukið fjár­hags­legt svigrúm og tryggja fjár­hags- og rekstrar­legan styrk Ocu­lis í framtíðinni. Góð staða hand­bærs fjár, sem tryggir rekstrarfé félagsins fram á fyrri hluta ársins 2028, styrkist enn frekar á sama tíma og við ein­beitum okkur að því að þróa eigna­safn okkar og koma byltingar­kenndum með­ferðarúrræðum til þeirra sem þarfnast þeirra mest,“ segir Riad Sherif M.D., fram­kvæmda­stjóri Ocu­lis.

Fram undan eru fjöl­breytt og mikilvæg skref í þróunaráætlun Ocu­lis.

Á síðari hluta ársins 2025 eru fyrir­huguð sam­skipti við Mat­væla- og lyfja­stofnun Bandaríkjanna (FDA) vegna þriggja mis­munandi ábendinga sem varða lyfja­efnið Privosegtor (OCS-05).

Þá er jafn­framt á­formað að hefja fasa 2/3 rannsókn með Li­camin­limab (OCS-02) við með­ferð við augnþurrki á sama tíma­bili.

Á fyrri hluta árs 2026 stendur til að ráðast í fasa 2/3 rannsókn á Privosegtor við bráðri sjóntauga­bólgu.

Einnig er búist við að fyrstu niður­stöður úr fasa 3 DIAMOND rannsókninni á augn­dropanum OCS-01 liggi fyrir á öðrum árs­fjórðungi 2026. Verði þær niður­stöður jákvæðar stefnir félagið á að leggja fram sína fyrstu markaðs­leyfis­umsókn síðar það sama ár.