Líftæknifyrirtækið Oculis Holding AG hefur tryggt sér aukið fjármagn með breytingum á lánssamningi við sjóði í stýringu hjá bandaríska fjárfestingarrisanum BlackRock.
Með breytingunum hækkar möguleg heildarlánsheimild félagsins úr 75 milljónum í allt að 100 milljónir svissneskra franka (CHF), jafnvirði um 15,3 milljarða íslenskra króna.
Í tilkynningu félagsins til kauphallarinnar í morgun kemur fram að breytti lánssamningurinn feli í sér sveigjanlega uppbyggingu þar sem hægt er að nýta fjármagnið í þremur 25 milljóna franka hlutum, með möguleika á viðbótar 25 milljóna franka láni.
Engin upphæð var dregin á lánið við undirritun en aðgengi að fjármununum mun styðja félagið á mikilvægu stigi klínískrar þróunar.
„Við fögnum því að hafa hækkað lánsheimild okkar samkvæmt eldri lánssamningi við sjóði í stýringu BlackRock, en breytingarnar hafa í för með sér aukið fjárhagslegt svigrúm og tryggja fjárhags- og rekstrarlegan styrk Oculis í framtíðinni. Góð staða handbærs fjár, sem tryggir rekstrarfé félagsins fram á fyrri hluta ársins 2028, styrkist enn frekar á sama tíma og við einbeitum okkur að því að þróa eignasafn okkar og koma byltingarkenndum meðferðarúrræðum til þeirra sem þarfnast þeirra mest,“ segir Riad Sherif M.D., framkvæmdastjóri Oculis.
Fram undan eru fjölbreytt og mikilvæg skref í þróunaráætlun Oculis.
Á síðari hluta ársins 2025 eru fyrirhuguð samskipti við Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) vegna þriggja mismunandi ábendinga sem varða lyfjaefnið Privosegtor (OCS-05).
Þá er jafnframt áformað að hefja fasa 2/3 rannsókn með Licaminlimab (OCS-02) við meðferð við augnþurrki á sama tímabili.
Á fyrri hluta árs 2026 stendur til að ráðast í fasa 2/3 rannsókn á Privosegtor við bráðri sjóntaugabólgu.
Einnig er búist við að fyrstu niðurstöður úr fasa 3 DIAMOND rannsókninni á augndropanum OCS-01 liggi fyrir á öðrum ársfjórðungi 2026. Verði þær niðurstöður jákvæðar stefnir félagið á að leggja fram sína fyrstu markaðsleyfisumsókn síðar það sama ár.