Hluta­bréfa­verð Sýnar lækkaði um rúm 2% í við­skiptum dagsins. Gengi félagsins hefur nú lækkað um 15% frá því að Fjar­skipta­stofa skikkaði Sýn til að að verða við beiðni Símans um að­gang að línu­legum sjón­varpsút­sendingum.

Fyrir viku síðan sendi Síminn við­skipta­vinum sínum tölvupóst þar sem þeim var boðið að kaupa áskrift að ensku úr­vals­deildinni, Meistara­deild Evrópu og For­múlunni beint af Símanum.

Áskriftar­pakki Símans að íþrótta­efni sem Sýn á sýningarrétt á var jafn­framt ódýrari en hjá Sýn en einungis er þó um að ræða að­gang að línu­legri dag­skrá.

Í há­deginu í dag var greint frá því að fjar­skipta­félagið Nova hefði sett af stað til­boð þar sem við­skipta­vinir fá 50% af­slátt í þrjá mánuði af áskrift að SÝN+ Allt Sport eða annarri ís­lenskri streymis­veitu, þegar þeir eru með heima­net frá Nova.

Sam­kvæmt félaginu tryggir til­boðið að við­skipta­vinir hafi greiðan að­gang að enska boltanum í vetur, auk mikils úr­vals annars íþrótta- og afþreyingar­efnis.

Fjar­skipta­stofa sagði að sam­kvæmt lögum um fjölmiðla og fjar­skipti, sem heimila fjar­skipta­fyrir­tækjum að óska eftir að­gangi að dreifi­kerfum fjölmiðla­veita í þágu neyt­enda.

Ákvörðunin gildir til 1. febrúar 2026 en er fram­lengjan­leg til septem­ber sama ár, náist ekki samningar að því loknu.

Í árs­hluta­upp­gjöri fyrsta árs­fjórðungs sagði Her­dís Dröfn Fjeld­sted, for­stjóri Sýnar, að enski boltinn væri mikilvægt sóknarfæri sem styður við mark­mið Sýnar um að auka markaðs­hlut­deild og styrkja arð­semi félagsins á seinni hluta ársins.

Hún hefur gagn­rýnt ákvörðun Fjar­skipta­stofu harð­lega og segir Sýn telja niður­stöðuna veru­lega óvænta og í and­stöðu við það sem telst „eðli­legar leik­reglur á markaði“.

Sýn hefur kært bráða­birgðaákvörðun Fjar­skipta­stofu til úr­skurðar­nefndar fjar­skipta- og póst­mála.