Hlutabréfaverð Sýnar lækkaði um rúm 2% í viðskiptum dagsins. Gengi félagsins hefur nú lækkað um 15% frá því að Fjarskiptastofa skikkaði Sýn til að að verða við beiðni Símans um aðgang að línulegum sjónvarpsútsendingum.
Fyrir viku síðan sendi Síminn viðskiptavinum sínum tölvupóst þar sem þeim var boðið að kaupa áskrift að ensku úrvalsdeildinni, Meistaradeild Evrópu og Formúlunni beint af Símanum.
Áskriftarpakki Símans að íþróttaefni sem Sýn á sýningarrétt á var jafnframt ódýrari en hjá Sýn en einungis er þó um að ræða aðgang að línulegri dagskrá.
Í hádeginu í dag var greint frá því að fjarskiptafélagið Nova hefði sett af stað tilboð þar sem viðskiptavinir fá 50% afslátt í þrjá mánuði af áskrift að SÝN+ Allt Sport eða annarri íslenskri streymisveitu, þegar þeir eru með heimanet frá Nova.
Samkvæmt félaginu tryggir tilboðið að viðskiptavinir hafi greiðan aðgang að enska boltanum í vetur, auk mikils úrvals annars íþrótta- og afþreyingarefnis.
Fjarskiptastofa sagði að samkvæmt lögum um fjölmiðla og fjarskipti, sem heimila fjarskiptafyrirtækjum að óska eftir aðgangi að dreifikerfum fjölmiðlaveita í þágu neytenda.
Ákvörðunin gildir til 1. febrúar 2026 en er framlengjanleg til september sama ár, náist ekki samningar að því loknu.
Í árshlutauppgjöri fyrsta ársfjórðungs sagði Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, að enski boltinn væri mikilvægt sóknarfæri sem styður við markmið Sýnar um að auka markaðshlutdeild og styrkja arðsemi félagsins á seinni hluta ársins.
Hún hefur gagnrýnt ákvörðun Fjarskiptastofu harðlega og segir Sýn telja niðurstöðuna verulega óvænta og í andstöðu við það sem telst „eðlilegar leikreglur á markaði“.
Sýn hefur kært bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.