Norska orkufyrirtækið Equinor, sem er í meirihlutaeigu norska ríkisins, hyggst verja 10% hlut sinn í danska orkufyrirtækinu Ørsted í fyrirhuguðu hlutabréfaútboði síðarnefnda félagsins, sem verður stærsta hlutafjárútboð í sögu Danmerkur.

Equinor hyggst taka þátt í útboði Ørsted fyrir allt að 939 milljónir dala, eða 115 milljarða íslenskra króna, að því er kemur fram í tilkynningu á vef félagsins. Þá hyggst norska félagið tilnefna mann í stjórn Ørsted á næsta aðalfundi.

Equinor segir ákvörðunina endurspegla trú félagsins á undirliggjandi rekstri Ørsted og samkeppnishæfni vindorku úti á hafi í framtíðar orkusamsetningu á ákveðnum svæðum. Þá talar Equinor fyrir nánara samstarfi milli félaganna.

Ørsted tilkynnti fyrir nokkrum vikum um að félagið hygðist sækja um 60 milljarða danskra króna í nýtt hlutafé, eða sem nemur ríflega 1.150 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi, vegna áskorana tengdum vindorkuverkefni félagsins í Bandaríkjunum.

Í síðustu viku fyrirskipaði ríkisstjórn Trump skyndilega stöðvun á uppbyggingu vindorkuversins við Rhode Island. Samkvæmt Ørsted er verkefnið komið 80% áleiðis en undirstöður 45 af 65 vindmylla eru tilbúnar.

Danska ríkið er stærsti hluthafi Ørsted með 50,1% hlut.