Þrátt fyrir háværar fyrir­sagnir um átök í alþjóða­stjórn­málum, tolla­stríð og veik­leika á vinnu­markaði ríkir óvenju­leg ró á fjár­málamörkuðum.

Á meðan skulda- og hluta­bréfa­markaðir vestan­hafs hafa hreyfst hægt og ró­lega upp á við eru vísitölur sem mæla sveiflur og áhættu nær sögu­legum lægðum.

Þessa þróun má rekja til styrk­leika undir­liggjandi stoða bandaríska hag­kerfisins, sam­kvæmt Rick Rieder, for­stöðu­manni skulda­bréfa­fjár­festinga hjá BlackRock, í

Í að­sendri grein sem birtist í Financial Times segir Reider að verðlagning val­rétta, áhættuálag og kostnaður við skulda­tryggingar (e. credit default swaps) séu allt með lægsta móti.

„Markaðir eru ekki að hunsa áhættu – þeir eru að verð­leggja kerfi sem er smíðað til að standast áföll,“ skrifar Rieder.

Þrátt fyrir tolla­hótanir fyrr á árinu hefur kerfisáhætta ekki aukist í neinum mælan­legum skilningi.

Rieder segir að þetta bendi ekki til kæru­leysis fjár­festa heldur til kerfis sem er hannað til að með­taka truflanir án þess að missa jafn­vægi.

Þjónustu­greinar standa nú undir 81% af lands­fram­leiðslu og 69% af neyslu heimila. Þar sem þjónustu­neysla sveiflast síður en varaút­gjöld hefur hag­sveiflan mýkst og orðið jafnari.

Heimilin búa yfir sterkari stöðu en áður. Skuldir sem hlut­fall af hreinni eign eru um 50% lægri en við hrun fjár­mála­kerfisins árið 2008.

Nettó­eign heimila nemur nú 7,6 sinnum ráðstöfunar­tekjum — hæsta hlut­fall sem sést hefur fyrir heims­far­aldur. Meðal­vaxtapró­senta á fast­eigna­lánum stendur í 4,05% og vextir sem hlut­fall af ráðstöfunar­tekjum eru undir 10%.

Skulda­bréfaút­gef­endur með fjár­festingar­ein­kunn (e. invest­ment-grade) hafa lengt meðaltíma lána sinna og safnað hand­bæru fé.

Að sögn Rieders má nú byggja skulda­bréfasöfn með A-ein­kunn sem skila 6–7% árs­tekjum með einungis 3% verðbreyti­leika.

Sjóðir með veð­tryggðar eignir og einka­neyslu­skuldir (e. secu­ritised assets og private credit) geta skilað ávöxtun sem líkist hluta­bréfaávöxtun en þó með áhættu sem minnir meira á fjár­festinga­ein­kunn.

Þótt hluta­bréf virðast dýr miðað við sögu­leg meðaltöl þá eru tekjur fyrir­tækja stöðugt að slá væntingar.

Rieder segir að byltingar í gervi­greind, skýja­lausnum og sjálf­virknitækni skapi nýjar tekju­lindir. Sam­hliða gríðar­legri fjár­festingu fyrir­tækja í eigin bréfum, litlum út­boðum og lausu fé á peninga­markaði viðhelst eftir­spurnin sterk.

Rieder hvetur fjár­festa til að viðhalda hluta­bréfaáhættu, halla sér að hágæða skulda­bréfum og bæta við óháðum eignum eins og fast­eignum, einka­fjár­festingum og í hóf­legum mæli raf­myntum.

Þannig megi ná stöðugri ávöxtun, jafn­vel þótt heimurinn utan markaða sé háværari en nokkru sinni fyrr.