Þrátt fyrir háværar fyrirsagnir um átök í alþjóðastjórnmálum, tollastríð og veikleika á vinnumarkaði ríkir óvenjuleg ró á fjármálamörkuðum.
Á meðan skulda- og hlutabréfamarkaðir vestanhafs hafa hreyfst hægt og rólega upp á við eru vísitölur sem mæla sveiflur og áhættu nær sögulegum lægðum.
Þessa þróun má rekja til styrkleika undirliggjandi stoða bandaríska hagkerfisins, samkvæmt Rick Rieder, forstöðumanni skuldabréfafjárfestinga hjá BlackRock, í
Í aðsendri grein sem birtist í Financial Times segir Reider að verðlagning valrétta, áhættuálag og kostnaður við skuldatryggingar (e. credit default swaps) séu allt með lægsta móti.
„Markaðir eru ekki að hunsa áhættu – þeir eru að verðleggja kerfi sem er smíðað til að standast áföll,“ skrifar Rieder.
Þrátt fyrir tollahótanir fyrr á árinu hefur kerfisáhætta ekki aukist í neinum mælanlegum skilningi.
Rieder segir að þetta bendi ekki til kæruleysis fjárfesta heldur til kerfis sem er hannað til að meðtaka truflanir án þess að missa jafnvægi.
Þjónustugreinar standa nú undir 81% af landsframleiðslu og 69% af neyslu heimila. Þar sem þjónustuneysla sveiflast síður en varaútgjöld hefur hagsveiflan mýkst og orðið jafnari.
Heimilin búa yfir sterkari stöðu en áður. Skuldir sem hlutfall af hreinni eign eru um 50% lægri en við hrun fjármálakerfisins árið 2008.
Nettóeign heimila nemur nú 7,6 sinnum ráðstöfunartekjum — hæsta hlutfall sem sést hefur fyrir heimsfaraldur. Meðalvaxtaprósenta á fasteignalánum stendur í 4,05% og vextir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru undir 10%.
Skuldabréfaútgefendur með fjárfestingareinkunn (e. investment-grade) hafa lengt meðaltíma lána sinna og safnað handbæru fé.
Að sögn Rieders má nú byggja skuldabréfasöfn með A-einkunn sem skila 6–7% árstekjum með einungis 3% verðbreytileika.
Sjóðir með veðtryggðar eignir og einkaneysluskuldir (e. securitised assets og private credit) geta skilað ávöxtun sem líkist hlutabréfaávöxtun en þó með áhættu sem minnir meira á fjárfestingaeinkunn.
Þótt hlutabréf virðast dýr miðað við söguleg meðaltöl þá eru tekjur fyrirtækja stöðugt að slá væntingar.
Rieder segir að byltingar í gervigreind, skýjalausnum og sjálfvirknitækni skapi nýjar tekjulindir. Samhliða gríðarlegri fjárfestingu fyrirtækja í eigin bréfum, litlum útboðum og lausu fé á peningamarkaði viðhelst eftirspurnin sterk.
Rieder hvetur fjárfesta til að viðhalda hlutabréfaáhættu, halla sér að hágæða skuldabréfum og bæta við óháðum eignum eins og fasteignum, einkafjárfestingum og í hóflegum mæli rafmyntum.
Þannig megi ná stöðugri ávöxtun, jafnvel þótt heimurinn utan markaða sé háværari en nokkru sinni fyrr.