Verzlanahöllin opnaði á Laugavegi 26 í desember 2020 en þar geta viðskiptavinir leigt bása og selt notaðar vörur. Verslunin er í eigu þriggja mæðgna, Sveindísar Þórhallsdóttur, Þórdísar Þórhallsdóttur og móður þeirra Vilborgar Norðdahl.

Þórdís Þórhallsdóttir, ein af eigendum Verzlanahallarinnar, lýsir aukinni eftirspurn eftir notuðum vörum undanfarin misseri. Hún segir að verslun þeirra nái varla að anna eftirspurn og hafi hún meðal annars þurft að bæta við fleiri básum.

„Eftirspurnin hefur klárlega aukist og við erum bókuð langt fram í tímann. Pabbi var líka að klára að bæta við 10 básum en við höfum samt ekki undan. Við þurfum oft líka að segja við fólk að það sé ekki hægt að framlengja þegar leigutíminn er búinn því það er löngu orðið uppselt.“

Að mati Þórdísar er orðin meiri vitundarvakning hjá fólki þegar kemur að endurnýtingu. Hún segir einnig að þó svo að vörur séu gamlar þá dragi það ekki úr verðmæti og nytsemi þeirra.

„Ég er mamma með þrjá unglinga, þannig ég veit alveg hvar gæðin liggja. Það er til dæmis búið að þvo fötin þegar ég kaupi þá og þarf ég þá ekki að hafa áhyggjur um það hvort fötin minnki eða víkki við þvott. Svo er líka stundum skemmtilegra að kaupa notuð föt eins og til dæmis leðurjakka.“

Fjallað er um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.