Hlutabréfamarkaðir í Evrópu opnuðu grænir í morgun eftir rauða daga, en evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan er upp um rúm 3% í dag. Auk þess er franska CAC 40 vísitalan upp um 4,6% og þýska DAX vísitalan upp um tæp 5%.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í dag að sambandið ætti nóg af jarðgasi í gegnum veturinn. Þetta kemur fram í grein hjá Yahoo Finance. Nýverið hafa bæði Bandaríkin og Bretland sagst ætla að vinda ofan af innflutningi á olíu og gasi frá Rússlandi.

Sjá einnig: Bretar auki olíuframleiðslu

Breska FTSE 100 vísitalan er upp um rúm 2% í dag. Breska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún ætli að vinda ofan af innflutningi á olíu og gasi frá Rússlandi á þessu ári, en 8% af olíuinnflutningi Breta kemur frá Rússlandi. Þess í stað ætla Bretar sjálfir að auka framleiðslu á olíu og gasi.

Íslenskur hlutabréfamarkaður er engin undantekning, en öll félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar eru græn eins og stendur. OMXI10 úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,2% frá opnun markaða. Kvika banki er upp um tæp 6% og Arion um 2,6%. Gengi bréfa Icelandair eru upp um 5,3% og Play er upp um 2%.