Spænski bankinn Santander þarf að greiða ítalska bankamanninum Andrea Orcel 68 milljónir evra í bætur, sem samsvarar um tíu milljörðum króna, en bankinn tapaði dómsmáli gegn Orcel síðastliðinn föstudag í Madríd. Þetta kemur fram í grein Financial Times.
Árið 2018 samdi bankinn við Orcel um að verða nýr forstjóri Santander, en bankinn hætti skömmu síðar við ráðninguna. Á þessum tíma var Orcel yfir fjárfestingarbankanum UBS. Í grein Financial Times segir að Santander hafi brotið samningalög með því að standa ekki við samninginn við Orcel, en hann er nú forstjóri fjárfestingabankans UniCredit, næst stærsta lánveitanda Ítalíu.
Greiðslan sem Santander þarf að inna af hendi samanstendur meðal annars af 5,8 milljónum evra í vangoldin laun og 17 milljónum evra í undirskriftarbónus.
„Það er óheppilegt að það þurfti að koma til þessa en ef horft er til staðreynda og þess sem hefur komið fram í dómstólum er ljóst að niðurstaðan er augljós," sagði Orcel í samtali við Financial Times. Orcel bætti við að hann vonaðist til þess að málinu ljúki sem fyrst og segist hann vera 150 prósent með hugann við UniCredit.
Santander hafa sagst ætla að áfrýja niðurstöðunni.