Flugfélagið Play flutti alls 124.587 farþega í júlí 2025, sem er talsvert færri en á sama tíma í fyrra þegar farþegafjöldinn nam 187.835. Félagið segir samdráttinn skýrast af því að færri flugvélar hafi verið í áætlunarflugi vegna leigu til annarra flugrekenda.
Sætanýting Play batnaði en og var 90,3% á tímabilinu, sem er aukning frá 88,4% í júlí 2024. Samkvæmt félaginu endurspeglar þetta sterka eftirspurn og gott jafnvægi í leiðakerfi PLAY, einkum í ljósi aukinnar áherslu á vinsæla sólarlandaáfangastaði frá Íslandi – markað sem hefur oft haft lakari sætanýtingu en hærri einingatekjur.
„Sætanýtingin í júlí náði 90,3%, sem er sérstaklega jákvætt í ljósi áherslunnar á sólarlandaáfangastaði,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY í tilkynningu til Kauphallarinnar. „Þessi frammistaða sýnir að eftirspurnin er sterk og stefna okkar rétt.“
Af heildarfjölda farþega í júlí voru 38,6% að fara frá Íslandi, 39,1% að koma til landsins og 22,3% voru tengifarþegar.
Þrátt fyrir breytta nýtingu flugflotans hélt stundvísihlutfall félagsins áfram að vera hátt – 85,6% í júlí 2025 samanborið við 85,4% á sama tíma í fyrra.
Félagið segir stefnu sína felast í því að tryggja arðsemi og rekstrarlegan stöðugleika, meðal annars með tekjuskapandi leigusamningum samhliða vexti í eigin áætlunarflugi.
„Ég vil hrósa starfsfólki PLAY fyrir frábært starf og fagmennsku,“ segir Einar Örn og bætir við að júlí hafi verið einn annasamasti ferðamánuður ársins.