Sala japanska stórfyrirtækisins SoftBank á Arm, sem hannar örgjörva, til Nvidia féll saman í gær en samruni félagana tveggja hefði orðið sá stærsti í sögu örgjörvaiðnaðarins. Fyrirtækin lýstu því að töluverðar hindranir hjá eftirlitsaðilum hafi staðið í vegi fyrir viðskiptunum.

Fyrirtækin náðu samkomulagi um kaupin í september 2020 og voru viðskiptin þá metin á um 40 milljarða dala. Virði kaupsamningsins hækkaði verulega í kjölfarið eftir að hlutabréf Nvidia tóku af stað og fór upp í nærri 80 milljarða dala undir lok síðasta árs. Hlutabréfagengi hefur hins vegar fallið um nærri fimmtung í ár.

Ýmis stór tæknifyrirtæki, þar á meðal Qualcomm og Microsoft, voru mótfallin viðskiptunum en Arm býr til tæknina á bak við örgjörva sem notaðir eru í mörgum af vinsælustu símum heims, samkvæmt Financial Times .

Þar sem ekkert verður af viðskiptunum þá hyggst SoftBank fara með Arm á markað fyrir lok næsta fjárhagsárs, sem í mars 2023. SoftBank fær 1,25 milljarða dala í bætur þar sem samruninn fór ekki í gegn.