Hæstiréttur Bretlands hefur ógilt sakfellingu Tom Hayes, fyrrverandi verðbréfamiðlari hjá UBS og Citigroup, fyrir markaðsmisnotkun tengda LIBOR-vísitölunni.
Úrskurðurinn, sem kveðinn var upp í morgun, markar þáttaskil í sögu viðbragða yfirvalda við meintum brotum í fjármálakerfinu í kjölfar hrunsins 2008 og vekur upp spurningar um réttmæti annarra sambærilegra mála.
Hayes, sem varð árið 2015 fyrsti einstaklingurinn í heiminum til að hljóta fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á skráningu LIBOR, var dæmdur í 14 ára fangelsi.
Um er að ræða einn þyngsta dóm sem nokkru sinni hefur verið kveðinn upp í Bretlandi fyrir fjármuna- og efnahagsbrot. Hann afplánaði fimm og hálft ár eftir að dómurinn var síðar styttur í 11 ár við áfrýjun.
LIBOR (London Interbank Offered Rate) var áratugum saman meðal mikilvægustu viðmiðunarvaxta í alþjóðakerfinu og hafði áhrif á verðlagningu billjóna dollara í skuldabréfum, lánum og fjármálagerningum.
Vísitalan var ákvörðuð daglega með því að stærstu bankar í London skiluðu inn mati á því hvaða vexti þeir töldu sig geta fengið frá öðrum fjármálastofnunum.
Tom Hayes, sem starfaði hjá UBS og síðar Citigroup, var sagður hafa reynt að hafa áhrif á þessa vexti með því að hvetja samstarfsfólk sitt í viðkomandi teymum til að skila inn tölum sem voru hagfelldar fyrir afleiðusamninga sem hann hélt á.
Ákæruvaldið (Serious Fraud Office, SFO) taldi að með þessu hefði Hayes brotið gegn reglum um sanngirni, gagnsæi og heiðarleika á markaði og þar með framið refsiverða markaðsmisnotkun (market manipulation).
Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að kviðdómurinn í Southwark-héraðsdómi hafi fengið rangar leiðbeiningar um hvernig meta ætti hvort hegðun Hayes teldist óheiðarleg eða ekki.
Sérstaklega hafi verið rangt að leiða kviðdóminn að þeirri niðurstöðu að vaxtatilkynning væri „ósönn eða óheiðarleg“ ef hún væri með einhverjum hætti mótuð af hagsmunum úr viðskiptastarfsemi.
Lord Leggatt, sem skrifaði meirihlutaálit dómsins, sagði að slíkt mat hefði átt að vera í höndum kviðdómsins og að lagalegar leiðbeiningar dómarans hefðu þrengt möguleikann á sanngjarnri málsmeðferð.
Hæstiréttur ógilti því sakfellingu Hayes án þess þó að lýsa hann saklausan.
Samhliða var sakfelling yfir Carlo Palombo, fyrrverandi starfsmanni Barclays sem hafði hlotið fjögurra ára dóm fyrir að reyna að hafa áhrif á EURIBOR-vísitöluna, einnig felld úr gildi á sambærilegum forsendum.
Í kjölfar dómsins gaf SFO út yfirlýsingu þess efnis að embættið hygðist ekki sækja Hayes eða Palombo aftur til saka.
Þar með hefur Hayes nú formlega hreinsað sakaskrá sína.
„Við höfum farið rækilega yfir niðurstöðu dómsins og aðstæður í heild sinni og metið að ekki sé í almannaþágu að óska eftir endurupptöku málsins,“ sagði SFO í yfirlýsingu.
Dómurinn hefur þegar vakið mikla athygli innan fjármálageirans en hann gæti verið fordæmisgefandi í öðrum málum þar sem reynt hefur á lögmæti hegðunar á mörkuðum sem byggja á mati og hefðum fremur en föstum reglum.
Tímasetningin gefur einnig tilefni til frekari vangaveltna, en aðeins fáum dögum áður hafði dómstóll í Bandaríkjunum fellt niður sakfellingu yfir Mark Johnson, fyrrverandi gjaldmiðlaviðskiptastjóra hjá HSBC, sem var dæmdur í fangelsi fyrir svik í tengslum við gjaldmiðlaskipti.
Samkvæmt FT gefa þessi mál til kynna að réttarumhverfi markaðsviðskipta sé að þróast í átt til strangari skilyrða um sönnunarbyrði og meiri skýrleika í skilgreiningu saknæmrar háttsemi, jafnvel þegar um er að ræða siðferðilega vafasama hegðun.