Hæstiréttur Bret­lands hefur ógilt sak­fellingu Tom Hayes, fyrr­verandi verðbréfamiðlari hjá UBS og Citigroup, fyrir markaðsmis­notkun tengda LIBOR-vísitölunni.

Úr­skurðurinn, sem kveðinn var upp í morgun, markar þátta­skil í sögu viðbragða yfir­valda við meintum brotum í fjár­mála­kerfinu í kjölfar hrunsins 2008 og vekur upp spurningar um rétt­mæti annarra sam­bæri­legra mála.

Hayes, sem varð árið 2015 fyrsti ein­stak­lingurinn í heiminum til að hljóta fangelsis­dóm fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á skráningu LIBOR, var dæmdur í 14 ára fangelsi.

Um er að ræða einn þyngsta dóm sem nokkru sinni hefur verið kveðinn upp í Bret­landi fyrir fjármuna- og efnahagsbrot. Hann af­plánaði fimm og hálft ár eftir að dómurinn var síðar styttur í 11 ár við áfrýjun.

LIBOR (London Inter­bank Of­fered Rate) var ára­tugum saman meðal mikilvægustu viðmiðunar­vaxta í alþjóða­kerfinu og hafði áhrif á verðlagningu billjóna dollara í skulda­bréfum, lánum og fjár­mála­gerningum.

Vísi­talan var ákvörðuð dag­lega með því að stærstu bankar í London skiluðu inn mati á því hvaða vexti þeir töldu sig geta fengið frá öðrum fjár­mála­stofnunum.

Tom Hayes, sem starfaði hjá UBS og síðar Citigroup, var sagður hafa reynt að hafa áhrif á þessa vexti með því að hvetja sam­starfs­fólk sitt í viðkomandi teymum til að skila inn tölum sem voru hag­felldar fyrir af­leiðu­samninga sem hann hélt á.

Ákæru­valdið (Serious Fraud Office, SFO) taldi að með þessu hefði Hayes brotið gegn reglum um sann­girni, gagnsæi og heiðar­leika á markaði og þar með framið refsi­verða markaðsmis­notkun (market manipulation).

Í niður­stöðu Hæstaréttar kemur fram að kviðdómurinn í Sout­hwark-héraðs­dómi hafi fengið rangar leiðbeiningar um hvernig meta ætti hvort hegðun Hayes teldist óheiðar­leg eða ekki.

Sér­stak­lega hafi verið rangt að leiða kviðdóminn að þeirri niður­stöðu að vaxta­til­kynning væri „ósönn eða óheiðar­leg“ ef hún væri með ein­hverjum hætti mótuð af hags­munum úr við­skipta­starf­semi.

Lord Leggatt, sem skrifaði meiri­hlutaálit dómsins, sagði að slíkt mat hefði átt að vera í höndum kviðdómsins og að laga­legar leiðbeiningar dómarans hefðu þrengt mögu­leikann á sann­gjarnri máls­með­ferð.

Hæstiréttur ógilti því sak­fellingu Hayes án þess þó að lýsa hann sak­lausan.

Sam­hliða var sak­felling yfir Car­lo Palombo, fyrr­verandi starfs­manni Barcla­ys sem hafði hlotið fjögurra ára dóm fyrir að reyna að hafa áhrif á EURI­BOR-vísitöluna, einnig felld úr gildi á sam­bæri­legum for­sendum.

Í kjölfar dómsins gaf SFO út yfir­lýsingu þess efnis að em­bættið hygðist ekki sækja Hayes eða Palombo aftur til saka.

Þar með hefur Hayes nú form­lega hreinsað saka­skrá sína.

„Við höfum farið ræki­lega yfir niður­stöðu dómsins og aðstæður í heild sinni og metið að ekki sé í al­mannaþágu að óska eftir endur­upp­töku málsins,“ sagði SFO í yfir­lýsingu.

Dómurinn hefur þegar vakið mikla at­hygli innan fjár­mála­geirans en hann gæti verið for­dæmis­gefandi í öðrum málum þar sem reynt hefur á lög­mæti hegðunar á mörkuðum sem byggja á mati og hefðum fremur en föstum reglum.

Tíma­setningin gefur einnig til­efni til frekari vanga­veltna, en aðeins fáum dögum áður hafði dómstóll í Bandaríkjunum fellt niður sak­fellingu yfir Mark John­son, fyrr­verandi gjald­miðla­við­skipta­stjóra hjá HSBC, sem var dæmdur í fangelsi fyrir svik í tengslum við gjald­miðla­skipti.

Sam­kvæmt FT gefa þessi mál til kynna að réttar­um­hverfi markaðsvið­skipta sé að þróast í átt til strangari skil­yrða um sönnunar­byrði og meiri skýr­leika í skil­greiningu saknæmrar hátt­semi, jafn­vel þegar um er að ræða sið­ferði­lega vafa­sama hegðun.