Farþegafjöldi Icelandair í júlí 2025 nam 611 þúsundum, svipuðum fjölda og á sama tíma í fyrra.
Á árinu hafa þó rúmlega 2,8 milljónir farþega ferðast með félaginu, sem er 9% aukning frá fyrra ári.
Samkvæmt nýbirtum mánaðartölum frá Icelandair voru 39% farþega í júlí á leið til Íslands, 17% frá landinu og 41% tengifarþegar.
Sætanýting nam 88,2%, sem er aukning um 1,1 prósentustig á milli ára, og stundvísi jókst einnig og mældist 81,8%.
Í öðrum rekstrareiningum heldur vöxturinn áfram: seldir blokktímar í leiguflugi jukust um 41% frá júlí 2024 og fraktflutningar um 19%. Þá minnkaði kolefnislosun á tonnkílómetra um 4%.
Hlutfall farþega til og frá Íslandi jókst um 14% frá júlí í fyrra, sem endurspeglar skýra stefnu félagsins að styrkja þessa lykilmarkaði. Innanlandsfarþegar voru 4% af heild.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir ánægjulegt að sjá áframhaldandi aukningu í farþegum til og frá Íslandi. „Markmið okkar er að vaxa utan háannatíma sumarsins til að minnka árstíðasveifluna í rekstrinum og efla tengingar allt árið,“ segir hann í tilkynningu.
Hann bætir við að félagið hyggist kynna til sögunnar fimm nýja áfangastaði í haust og vetur: Istanbul, Miami, Malaga, Edinborg og Höfn í Hornafirði, sem eigi að styrkja leiðakerfið yfir vetrartímann og auka framboð utan háannatíma.