Farþega­fjöldi Icelandair í júlí 2025 nam 611 þúsundum, svipuðum fjölda og á sama tíma í fyrra.

Á árinu hafa þó rúm­lega 2,8 milljónir farþega ferðast með félaginu, sem er 9% aukning frá fyrra ári.

Sam­kvæmt ný­birtum mánaðartölum frá Icelandair voru 39% farþega í júlí á leið til Ís­lands, 17% frá landinu og 41% tengi­farþegar.

Sætanýting nam 88,2%, sem er aukning um 1,1 pró­sentu­stig á milli ára, og stund­vísi jókst einnig og mældist 81,8%.

Í öðrum rekstrar­einingum heldur vöxturinn áfram: seldir blokktímar í leigu­flugi jukust um 41% frá júlí 2024 og frakt­flutningar um 19%. Þá minnkaði kol­efnislosun á tonn­kíló­metra um 4%.

Hlut­fall farþega til og frá Ís­landi jókst um 14% frá júlí í fyrra, sem endur­speglar skýra stefnu félagsins að styrkja þessa lykil­markaði. Innan­lands­farþegar voru 4% af heild.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, segir ánægju­legt að sjá áfram­haldandi aukningu í farþegum til og frá Ís­landi. „Mark­mið okkar er að vaxa utan háannatíma sumarsins til að minnka ár­stíða­sveifluna í rekstrinum og efla tengingar allt árið,“ segir hann í til­kynningu.

Hann bætir við að félagið hyggist kynna til sögunnar fimm nýja áfangastaði í haust og vetur: Istan­bul, Miami, Malaga, Edin­borg og Höfn í Hornafirði, sem eigi að styrkja leiða­kerfið yfir vetrar­tímann og auka fram­boð utan háannatíma.